Höfðu kyrrsetningu til skoðunar

Farþegaþota Southwest Airlines af gerðinni Boeing 737 MAX.
Farþegaþota Southwest Airlines af gerðinni Boeing 737 MAX. AFP

Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum höfðu til skoðunar að kyrrsetja nokkrar farþegaþotur af gerðinni Boeing 737 MAX á síðasta ári eftir að hafa fengið upplýsingar um vandamál tengt búnaði í þotunum sem ætlað er að koma í veg fyrir ofris og talinn er hafa valdið tveimur flugslysum, á þessu og síðasta ári, sem kostuðu samanlagt 346 manns lífið.

Fram kemur í frétt AFP, sem vísar í heimildarmann sem þekki til málsins, að starfsmenn Flugmálastofnun Bandaríkjanna (FAA) hafi komist að því að flugvélaframleiðandinn Boeing hefði gert viðvörunarmerki, sem ætlað er að láta flugmenn vita ef bilun kemur upp í áðurnefndum búnaði, óvirkt. Starfsmennirnir hafi verið með bandaríska flugfélagið Southwest Airlines, stærsta notanda Boeing 737 MAX-þotna, til skoðunar.

Fyrir flugslysið út af strönd Indónesíu í október, þar sem Boeing 737 MAX-farþegaþota flugfélagsins Lion Air fórst með 189 manns um borð, greindi Boeing frá því að umrædd viðvörunarljós væru virk á öllum slíkum þotum óháð því hvort áhöfnin teldi sig hafa virkjað þau eða ekki að sögn talsmanns Southwest Airlines. Eftir flugslysið hefði flugvélaframleiðandinn hins vegar sagt að viðvörunarljós væri óvirk nema þau væru sérstaklega virkjuð.

Viðvörunarljósið gert að aukabúnaði

Fram kemur í fréttinni að á þessum tímapunkti hefðu starfsmenn FAA komist að því að Boeing hefði gert viðvörunarljósið að aukabúnaði sem þyrfti að greiða sérstaklega fyrir og að fyrirtækið hefði gert þau óvirk í öllum Boeing 737 MAX-þotum sem það seldi Southwest Airlines án vitneskju flugfélagsins. Fyrir vikið hefði verið til skoðunar hjá starfsmönnunum að kyrrsetja þoturnar og hvort flugmenn þeirra þyrftu aukaþjálfun vegna þessa.

Starfsmenn FAA ákváðu að lokum að grípa ekki til kyrrsetningar en komu upplýsingunum á framfæri við yfirmenn sína hjá FAA. Farþegaþota Ethiopia Airlines af gerðinni Boeing 737 MAX fórst 10. mars með 157 manns um borð. Talið er að rekja megi flugslysið til umrædds búnaðar eins og flugslysið út af Indónesíu í október. Samkvæmt fréttinni var haft samband við FAA vegna málsins en stofnunin vildi ekki tjá sig um það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert