Tugir látnir í flóðum í Indónesíu

Mikið er um aurskriður og flóð í Indónesíu á monsúntímabilinu …
Mikið er um aurskriður og flóð í Indónesíu á monsúntímabilinu sem stendur yfir frá október til apríl ár hvert. Myndin er frá flóðunum á Súmötru á laugardag. AFP

40 manns hið minnsta eru látn­ir og tuga er enn saknað eft­ir mikl­ar rign­ing­ar sem valdið hafa flóðum og aur­skriðum í Indónesíu. Tugir þúsunda hafa þá þurft að yfirgefa heimili sín vegna flóðanna.

Mikið er um aurskriður og flóð í Indónesíu á monsúntímabilinu sem stendur yfir frá október til apríl ár hvert.

Yfirvöld í Bengkulu-héraði á indónesísku eyjunni Súmötru hafa staðfest að 29 manns hafi látist og 13 sé saknað og þá lést sex manna fjölskylda í Lampung-héraði á laugardag er aurskriða féll.

Urðu að flýja eftir að kyrkislöngur sluppu út

Tveir létust í höfuðborginni Jakarta í síðustu viku vegna flóðanna og yfir 2.000 manns í nágrannabæjarfélaginu Bogor neyddust til að yfirgefa heimili sín eftir að 14 kyrkislöngur, sem höfðu verið haldnar sem gæludýr, sluppu út.

Búið er að hafa uppi á sex slöngum, sem voru sumar allt að fjögurra metra langar, en átta eru enn lausar að sögn yfirvalda.

„Ef þið rekist á þær vinsamlegast látið yfirvöld eða sjálfboðaliða vita,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Sutopo Purwo Nugroho, talsmanni almannavarna Indónesíu.

„Við erum skelfingu lostin að heyra þetta,“ hefur AFP eftir Samsudin, einum íbúa Bogor. „Þær eru sagðar vera verulega stórar. Við viljum hjálp yfirvalda við að finna þær.“

Um 12.000 íbúar Bengkulu hafa þurft að yfirgefa heimili sín og hafa hundruð bygginga, brúa og vega orðið fyrir skemmdum.

Verst er ástandið í Bengkulu Tengah, sem er rétt utan við höfuðborgina en þar létust 22 ásamt hundruðum búfénaðar í aurskriðum og hafa yfirvöld sagt ólöglegan námagröft vera eina af ástæðum skriðanna.

Yfirvöld hafa komið upp skýlum og almannaeldhúsum fyrir þá sem nú eru á vergangi vegna rigninganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert