Yfir 10 þúsund fölsk ummæli Trump

Trump á kosningafundinum í Green Bay í Wisconsin.
Trump á kosningafundinum í Green Bay í Wisconsin. AFP

Eftir aðeins 800 daga í embætti hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti sett fram yfir 10 þúsund „röng eða misvísandi ummæli“, samkvæmt talningu sem Washington Post hefur birt.

Talningin, sem er unnin upp úr „Fact Checker“-gagnagrunni dagblaðsins, hófst á fyrstu 100 dögum Trump í embætti snemma árs 2017. Þá setti forsetinn að meðaltali fram fimm fölsk ummæli á dag. Undanfarna sjö mánuði hefur talan hækkað í næstum 23 á hverjum degi. Þar er átt við ummæli hans á kosningafundum, á Twitter, í ræðum og í samskiptum við fjölmiðla.

Á kosningafundum Trump sem bera yfirskriftina „Gerum Bandaríkin frábær á nýjan leik“ hefur hann farið oftast farið frjálslega með sannleikann, að sögn Washington Post, eða í 22% tilfella.

Blaðið bendir einnig á að forsetinn, sem iðulega gagnrýnir fjölmiðla fyrir að flytja falsfréttir, hefur tilhneigingu til að endurtaka sömu fölsku formúlurnar hvað eftir annað.

Að sögn Post fór Trump yfir 10 þúsund skipta markið hvað varðar röng eða misvísandi ummæli á föstudaginn, degi áður en hann hélt ræðu í Green Bay í ríkinu Wisconsin þar sem hann sagði að demókratar sem eru hliðhollir þungunarrofi styðji aftökur barna sem hafa þegar fæðst.

„Barnið fæðist,“ sagði hann. „Móðirin hittir lækninn. Þau vefja barninu fallega inn. Síðan ákveða læknirinn og móðirin hvort þau ætla að taka barnið af lífi eða ekki.“


Auk þess að kalla fjölmiðla „andstæðinga fólksins“ hefur Trump einnig gagnrýnt þá sem skoða hvort ummæli hans eiga við rök að styðjast. Kallaði hann þá fyrr á þessu ári „suma af óheiðarlegustu einstaklingunum í fjölmiðlum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert