Naumur meirihluti frönsku þjóðarinnar vill að Notre Dame-dómkirkjan verði endurbyggð nákvæmlega eins og hún var, samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í dag.
Franska ríkistjórnin undirbýr nú lagasetningu með það að markmiði að hefja endurbyggingu kirkjunnar og að henni verið lokið á innan við fimm árum. Samkvæmt könnuninni vilja 54% þjóðarinnar að kirkjan verði endurbyggð nákvæmlega eins og hún var.
Notre Dame-dómkirkjan skemmdist mikið í eldsvoða 15. apríl.
Aðeins fjórðungur aðspurðra vilja að nútímalegur arkitektúr verði hluti af endurbyggingunni. 21% aðspurðra sagðist ekki hafa neina skoðun á málinu. Það var fyrirtækið YouGov sem framkvæmdi könnunina.
Frönsk yfirvöld hafa ýtt úr vör alþjóðlegri hönnunarkeppni um endurbyggingu turnspíru kirkjunnar en hún var byggð á nítjándu öld. Spíran féll í eldsvoðanum.
Þær áætlanir Emmanuels Macron Frakklandsforseta um að hraða framkvæmdum við kirkjuna hafa vakið spurningar meðal arkitekta og sérfræðinga í verndun gamalla bygginga og fornleifa. Fyrir 1.100 þeirra skrifuðu undir bréf sem birt var opinberlega þar sem forsetinn var varaður við því að taka ákvarðanir um verkið í svo mikilli skyndingu.
„Við skulum taka okkur góðan tíma í að finna réttu leiðina og setja okkur svo metnaðarfull tímamörk,“ skrifuðu þeir.
Fjölmargir hafa heitið því að láta fé af hendi rakna til endurbyggingarinnar. Þegar hafa safnast um 850 milljónir evra til verksins.
Notre Dame-dómkirkjan var ekki byggð á einum degi. Bygging hennar hófst á 12. öld og byggt var við hana næstu aldir á eftir.