Nýsjálenska lögreglan hefur lagt hald á sprengju og skotfæri í auðu húsnæði í Christchurch. Svæðið í kring var rýmt og sprengjan fjarlægð. Einn er í haldi lögreglu í tengslum við málið. Hryðjuverkamaður skaut 50 manns til bana í tveimur moskum í borginni í síðasta mánuði.
Lögreglan greindi frá þessu um klukkan sex í morgun og að sprengjusveit hersins hafi fjarlægt pakkann. 33 ára gamall karl væri í haldi og að hann hafi veitt lögreglu upplýsingar sem tengjast rannsókninni. Ekki hafa verið veittar frekari upplýsingar um þann handtekna.