Juan Guaidó, þingforseti og leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, tilkynnti í dag að „lokaáfangi“ tilraunar hans til að binda endi á valdatíð Nicolasar Maduro Venesúelaforseta sé nú hafinn og að hann hafi stuðning hersins.
Að sögn BBC sést Guaidó í myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum í félagsskap manna í einkennisbúningum hermanna og er myndbandið sagt vera tekið á flugherstöð í landinu.
Í myndbandinu hvetur Guadió, sem lýsti sig forseta til bráðabirgða í upphafi þessa árs og nýtur til þess stuðnings tuga ríkja víða um heim, herinn til að aðstoða hann við að binda endi á „valdarán“ Maduros.
Ríkisstjórn Venesúela segir hins vegar um minni háttar valdaránstilraun að ræða sem verið sé að ná tökum á.
Guaidó segist í myndbandinu hafa stuðning „hugrakkra hermanna“ í Caracas, höfuðborg Venesúela.
„Íbúar Venesúela við skulum þyrpast út á strætin [...] til að styðja endalok valdaránsins, sem vinda má ofan af,“ sagði Guaidó. „Herinn hefur tekið rétta ákvörðun og hefur stuðning Venesúelabúa og stjórnarskrár okkar. Þeir eru öruggir með að vera réttu megin sögunnar.“
Myndbandið, sem birt var á Twitter-síðu Guaidós, sýnir hann standa við hlið annars stjórnarandstöðuleiðtoga, Leopoldo López, sem setið hefur í stofufangelsi allt frá því hann var fundinn sekur um að hafa hvatt til ofbeldis í mótmælum gegn stjórnvöldum árið 2014.
Sagði López, hermenn sem lýst hefðu yfir stuðningi við Guaidó, hafa leyst hann úr haldi.
Jorge Rodríguez, upplýsingamálaráðherra Venesúela, svaraði þessum fullyrðingum til á Twitter og sagði stjórnvöld nú vera að bregðast við litlum hópi „svikara innan hersins“ sem hann sagði vera að tala fyrir valdaráni.
Guaidó hefur hvatt herinn til að styðja sig allt frá því hann lýsti sig forseta landsins til bráðabirgða. Hefur hann kallað Maduro „valdaræningja“ þar sem lögmæti kosninganna sem hann hlaut endurkjör í hefur víða verið dregið í efa.
BBC segir myndbandið virðast hafa verið tekið við dögun á, eða í næsta nágrenni við La Carlota-flugherstöðina sem er í Caracas. Myndefni sem Reuters-fréttaveitan birti síðar hefur svo sýnt þá Guaidó og López í fylgd tuga manna í einkennisbúningi hermanna á einni af hraðbrautum Caracas. Bera margir þeirra bláan borða á handlegg til merkis um stuðning þeirra við Guaidó. Í upptökunni sést líka þegar táragasi er skotið að þeim.
López, sem er leiðtogi Voluntad Popular-flokksins sem Guidó er einnig félagi í, hvatti Venesúelabúa til að slást í hópinn með þeim. „Allir Venesúelabúar sem vilja frelsi ættu að koma hingað, trufla skipulagið og hvetja hermenn okkar til að ganga í lið með almenningi,“ sagði López og bað þjóðina að gera þetta í sameiningu.