Í búrkíni í Sports Illustrated

Halima Aden í búrkíni á ströndinni.
Halima Aden í búrkíni á ströndinni. Ljósmynd/Sports Illustrated

Sómölsk-bandarísk kona er fyrsta ofurfyrirsætan sem klæðist búrkíni á mynd sem birtist í hinu vinsæla tímariti Sports Illustrated. Stúlkan heitir Halima Aden og myndir af henni má finna í árlegu sundfatahefti tímaritsins. Búrkíni er sundfatnaður sem hylur mestan hluta líkamans fyrir utan andlit, hendur og fætur.

„Ungar konur sem klæðast hijab ættu að eiga fyrirmyndir í öllum greinum og öllum geirum samfélagsins,“ segir fyrirsætan í samtali við BBC.

Halima Aden ólst upp í flóttamannabúðum í Kenía. Hún flutti sjö ára gömul til Bandaríkjanna og hóf að klæðast hijab fljótlega eftir það. „Við sjáum nú stjórnmálakonur, konur í viðskiptalífinu, sjónvarpsfréttamenn og aðrar konur sem njóta velgengni og klæðast hijab og það eru skilaboðin sem við þurfum að senda.“

Hún segir viðbrögðin við myndbirtingunni hafa verið gríðarleg og segist stolt af því að Sports Illustrated hafi tekið skref í því að sýna konur sem klæðast með þessum hætti.

Sports Illustrated er bandarískt tímarit þar sem þekktar fyrirsætur prýða ætíð forsíðuna. Lesendur eru fyrst og fremst karlar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert