Tveir liðsmanna rússnesku hljómsveitarinnar Pussy Riot hafa fengið pólitískt hæli í Svíþjóð. Fólkið óttaðist handtöku ef það sneri aftur til Moskvu, samkvæmt sænskum fjölmiðlum.
Lusine Djanyan og Aleksej Knedljakovskj sóttu um hæli í Svíþjóð árið 2017 og hafa búið á heimili fyrir hælisleitendur í Lindesberg ásamt tveimur börnum sínum.
Þau sögðust hafa fengið líflátshótanir í Rússlandi vegna aðgerða þeirra en tvær úr hljómsveitinni voru handteknar og fangelsaðar í Rússlandi árið 2012 fyrir óspektir í kirkju í Moskvu.
Fyrst var beiðni þeirra um hæli hafnað en þau áfrýjuðu niðurstöðunni.
„Ég er mjög ánægð að börnin mín muni geta alist upp í öruggu umhverfi, sérstaklega þegar horft er til þess sem gengur á í Rússlandi,“ sagði Djanyan.