Óttast að Hagen sé látin

Anne-Elisabeth Hagen var rænt af heimili sínu 31. október í …
Anne-Elisabeth Hagen var rænt af heimili sínu 31. október í fyrra. Ekkert hefur spurst til hennar síðan og telur lögregla nú auknar líkur á að hún sé látin. AFP

Sex mánuðir eru nú liðnir frá því að Anne-Elisa­beth Hagen hvarf spor­laust af heim­ili sínu í Fjell­ham­ar í Løren­skógi og segir norska lögreglan verulegt áhyggjefni að ekkert lífsmark hafi borist á öllum þeim tíma.

Helsta kenning lögreglu hefur verið að Hagen, sem er gift milljarðamæringinum Tom Hagen, hafi verið rænt. Ekk­i er hins vegar vitað hvort að hún sé lífs eða liðin, en óprúttn­ir aðilar hafa reynt að svíkja fé út úr eig­in­manni henn­ar.

„Sex mánuðir eru nú frá því að tilkynnt var að hún væri horfin af heimili sínu. Það er staðreynd að engin sönnun um lífsmark hefur fengist eftir það, þrátt fyrir að fjölskylda hennar hafi ítrekað óskað eftir því svo hægt væri að hefja ferlið. Þrátt fyrir það hefur ekkert gerst,“ hefur norska dagblaðið Verdens Gang eftir lögregluforingjanum Tommy Brøske.

„Við höfum áður lýst yfir áhyggjum af skorti á sönnun þess að hún sé á lífi og við verðum að viðurkenna að þær áhyggjur hafa bara farið vaxandi. Við segjum nú að minni líkur séu á að Anne-Elisabeth sé á lífi en þegar við hófum þessa rannsókn,“ bætti Brøske við og kvaðst þó einnig þurfa að ítreka að lögregla hefði heldur engar vísbendingar sem bentu til hins gagnstæða.

Það síðasta sem heyrðist frá Anne-Elisa­beth Hagen var sím­tal til eins úr fjöl­skyld­unni klukk­an 09:14 þann 31. októ­ber. Eig­inmaður henn­ar, Tom Hagen, fór í vinn­una um klukk­an 9 og kom til baka um 13:30. Hálf­tíma síðar hafði hann sam­band við lög­reglu en þá hafði hann fundið bréf frá mann­ræn­ingj­un­um þar sem þeir kröfðust þess að fá 9 millj­ón­ir evra í lausn­ar­fé. Greiðslan átti að vera í raf­mynt. Síðan þá hafa mann­ræn­ingjarn­ir aðeins sent þrenn ra­f­ræn skila­boð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert