Lögreglan á Nýja-Sjálandi segir að engin tengsl séu á milli sprengjunnar sem fannst í borginni Christchurch og skotárásar í bænahúsi í mars sem varð fimmtíu múslimum að bana.
Lagt var hald á sprengju og skotfæri í auðu húsnæði í Christchurch í gær. Svæðið í kring var rýmt og sprengjan fjarlægð. 33 ára karlmaður var handtekinn vegna málsins.
„Við erum ekki að leita að öðrum vegna þessa atviks,“ sagði rannsóknarlögreglumaðurinn Corri Parnell í yfirlýsingu. „Það eru engin tengsl sem vitað er um á milli 33 ára karlmannsins og árásanna í Christchurch 15. mars.“
Maðurinn heitir Jay Michael Harding-Reriti og hefur verið kærður fyrir að hafa sprengiefni í fórum sínum. Hann verður í gæsluvarðhaldi til 6. maí.