Kallar eftir nýrri öldu mótmæla

Fjöldi fólks streymir á götur út í Venesúela til þess …
Fjöldi fólks streymir á götur út í Venesúela til þess að mótmæla forsetanum. AFP

Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela og yfirlýstur forseti landsins, hefur kallað eftir nýrri öldu mótmæla íbúa Venesúela og er búist við því að fjöldi mótmælenda haldi á götur út í dag til þess að mótmæla stjórn Nicolas Maduro forseta.

Guaido kallaði eftir aðstoð almennings í gær við að koma Maduro frá völdum og kvaðst hafa stuðning hersins.

Svo reyndist hins vegar ekki vera, en leiðtogar hersins virðast enn standa að baki Maduro, sem sagðist í gær hafa komið í veg fyrir valdarán.

„Við höldum áfram í dag,“ sagði Guaido í hvatningarræðu sinni. „Við höldum áfram af meiri styrk en nokkru sinni fyrr, Venesúela.“

Ofbeldi braust út á milli stríðandi fylkinga í höfuðborginni Karakas í gær í kjölfar ákalls Guaido um að herinn myndi snúa baki við Maduro. Ætla má að átök brjótist út að nýju í mótmælum dagsins, sem Guaido segir verða þau stærstu í sögu Venesúela.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert