Robert Mueller, sérstakur saksóknari, kvartaði við dómsmálaráðherra Bandaríkjanna vegna minnisblaðs ráðherrans í tengslum við rannsóknina á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti gat fyrir vikið lýst því yfir að hann væri saklaus af ásökunum um að hafa hindrað framgang réttvísinnar.
Það gerði forsetinn eftir að dómsmálaráðherrann William Barr kynnti fyrir bandaríska þinginu í mars fjögurra blaðsíðna minnisblað sitt um helstu niðurstöður tveggja ára rannsóknar Muellers. Sagði hann að ekki hefðu fundist nægar sannanir til að hægt væri að leggja fram ákæru í málinu.
Skýrslan sjálf, 448 blaðsíðna löng, birtist svo 18. apríl þar sem Mueller greindi frá mörgum tilraunum forsetans til að hindra rannsókn málsins.
Þremur dögum síðar sendi Mueller bréf til Barr þar sem hann kvartaði yfir minnisblaðinu og sagði það ekki ná að fanga fyllilega innihald skýrslunnar og niðurstöður hennar.
„Núna er uppi ruglingur á meðal almennings um þau gagnrýnu atriði sem má finna í niðurstöðum okkar,“ er Mueller sagður hafa skrifað.
„Þetta getur grafið undan helstu ástæðunum fyrir því að dómsmálaráðuneytið skipaði sérstakan saksóknara: Að tryggja að almenningur geti að fullu treyst niðurstöðum rannsóknarinnar“.