Tap skandinavíska flugfélagsins SAS nemur allt að 100 milljónum norskra króna á dag, rúmum 1.400 milljónum íslenskra króna, meðan á verkfalli 1.500 flugmanna stendur, greinir norski viðskiptavefmiðillinn E24 frá og hefur eftir greiningaraðilum. Verkfallið hefur nú staðið í sex daga og sitja deiluaðilar á neyðarfundi hjá ríkissáttasemjara í Noregi þegar þetta er skrifað, um hádegisbil að norskum tíma á verkalýðsdaginn, 1. maí.
SAS hefur alls fellt niður 3.306 flug sem 326.917 farþegar ætluðu sér að fljúga með, síðan verkfallið hófst, og nálgast farþegatalan íbúafjölda Íslands. Greint var frá því í gær að félagið hygðist fella niður vinnu 930 flugliða frá og með deginum í dag með því sem á norsku kallast „permittering“ og er haft yfir það þegar starfsfólk er sent heim vegna ónógra verkefna.
Vinnuveitandi greiðir þá full laun fyrstu dagana sem slíkt ástand varir en eftir það tímabil öðlast starfsfólk rétt til dagpeninga frá vinnumálastofnun síns búsetulands. Knut Morten Johansen, upplýsingafulltrúi SAS í Noregi, staðfesti þetta við norska dagblaðið VG og fleiri fjölmiðla í gær.
Mats Wilhelm Ruland, ríkissáttasemjari Noregs, sagði við norsku fréttastofuna NTB fyrir tveimur tímum að deiluaðilar sætu nú á neyðarfundi á skrifstofum hans og neyttu allra ráða til að komast að samkomulagi enda mikið í húfi, norska ríkisútvarpið NRK greindi frá því í kvöldfréttum sínum um helgina að hagnaður SAS síðasta ársfjórðung 2018, hagstæðasta rekstrarárs í sögu félagsins síðan á síðustu öld, væri á góðri leið að hverfa með manni og mús í verkfallinu sem hefur haft áhrif á ferðaáætlanir skandinavískra borgara um gervalla heimsbyggðina. Félagið hagnaðist á þeim fjórðungi um 804 milljónir norskra króna, rúma 11 milljarða íslenskra króna.
„Ég vona að við komumst í mark og að þessar viðræður skili okkur því að við komum flugvélunum okkar í loftið aftur,“ sagði Johansen upplýsingafulltrúi við VG rétt í þessu.