Þrátt fyrir ofbeldi og átök hefur tekist að bólusetja 34 milljónir barna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku í herferðum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, í samstarfi við ríkisstjórnir og hjálparsamtök frá því í byrjun árs. Um er að ræða lönd eins og Írak, Jórdaníu, Líbýu, Súdan, Sýrland og Jemen.
Bólusetningar verja börn fyrir sjúkdómum og dauða og marka upphaf að heilbrigðu og bættu lífi barna í þessum löndum. Í þessum ríkjum býr eitt af hverjum fimm börnum við stríð og eru í meiri hættu en flest önnur börn heimsins að smitast af farsóttum.