„Sjö daga martröð“ að ljúka

Katinka Riksfjord Sporsem, formaður stéttarfélagsins Norsk flygerforbund, ræðir við fjölmiðla …
Katinka Riksfjord Sporsem, formaður stéttarfélagsins Norsk flygerforbund, ræðir við fjölmiðla í húsnæði ríkissáttasemjara Noregs í gær en þá fyrir hádegi hófst fundur sem enn sér ekki fyrir endann á. Ljósmynd/AFP

Deiluaðilar í SAS-verkfallinu, sjálft flugfélagið annars vegar og flugmenn þess handan borðsins, virðast vera að koma inn til lendingar í verkfalli sem nú hefur lamað skandinavískar samgöngur um tæplega vikutíma og haft áhrif á ferðalög á fjórða hundrað þúsund farþega.

Samninganefndir hafa nú setið samfellt í 33 klukkustundir á fundi hjá ríkissáttasemjara Noregs og innti fréttaþulur NRK fréttamann á staðnum eftir því nú í kvöldfréttum hvort hann hefði séð til mannaferða þar á skrifstofunum.

„Ég er nú búinn að standa hérna í átta klukkustundir og hef ekki séð neina hreyfingu,“ svaraði maðurinn á staðnum þreytulega en að baki honum sáust aðrir blaða- og fréttamenn gægjast gegnum glerhurð sáttasemjara sem var kirfilega læst. „Okkur er sagt að þeir séu að loka þessu, kannski er þessari sjö daga martröð að ljúka,“ sagði hann að skilnaði.

Þær fregnir hafa sem sagt kvisast út að deiluaðilar séu í lokaaðflugi að því að knýja deilu sína til kyrrðar og nú sé aðeins verið að fínpússa smáatriðin en þau eru sögð mörg í kjarasamningnum. Ekki er lítið undir þar sem verkfallið kostar SAS andvirði 1.400 milljóna íslenskra króna dag hvern eins og mbl.is greindi frá í gær og er félagið á góðri leið með að þurrka út methagnað sinn á lokaársfjórðungi ársins 2018, ellefu milljarða króna.

Frá Gardermoen-flugvelli berst nú myndefni af verkfallsvörðum fara úr skærgulum verkfallsvestum sínum og henda þeim ofan í kassa svo líklegt má telja að vélar SAS hefji sig til himins einhvern tímann næsta sólarhringinn.

NRK 

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert