Trump vill tilvísanir um loftslagmál burt

Donald Trump Bandaríkjaforseti. Stjórn hans vill ekki að minnst sé …
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Stjórn hans vill ekki að minnst sé á loftslagbreytingar í yfirlýsingu Norðurskautsráðsins. AFP

Stjórn Donald Trump Bandaríkjaforseta þrýsti á um að allar tilvísanir í loftslagsbreytingar yrðu fjarlægðar úr alþjóðlegri yfirlýsingu Norðurskautráðsins, sem Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna á að ljá stuðning sinn í næstu viku.

Bandaríska dagblaðið Washington Post greinir frá þessu og segir þetta hafa leitt til erfiðra viðræðna milli ríkja Norðurskautsráðsins um áherslur á loftslagsbreytingar í yfirlýsingunni.

Yfirlýsing Norðurskautsráðsins er staðfesting á markmiðum og grunnreglum þeirra átta þjóða sem að ráðinu standa. Ráðið fundar á tveggja ára fresti og tekur Ísland við formennsku í ráðinu síðar í þessum mánuði.

Washington Post segir stjórn Trumps hafa hótað að staðfesta ekki yfirlýsingu þessa árs, vegna loftslagsmálanna. Hinar þjóðirnar hafi hins vegar ekki fallist á útgáfu þar sem loftslagsmálin eru undanskilin að því er blaðið hefur eftir þremur heimildamönnum sem þekkja vel til málsins. 

Er stjórn Trumps sögð hafa mótmælt orðalagi í yfirlýsingunni sem er ekki bindandi. Yfirlýsinguna má engu að síður skilja á þann hátt að um sameiginlega skuldbindingu sé að ræða um að taka á áhrifum loftslagsbreytinga á Norðurheimsskautið.

Hefur blaðið eftir einum embættismanni sem þekkir vel til undirbúnings vegna fundarins í ár að Bandaríkin hefðu „gefið í skyn andstöðu við að nokkurs staðar væri minnst á loftslagsbreytingar.“

„Það hafa verið átök í samningaviðræðum við Bandaríkin,“ hefur blaðið eftir einum embættismannanna.

Allir þrír sögðu bandarísk stjórnvöld upphaflega hafa viljað hvergi láta minnast á loftslagbreytingar eða Parísarsamkomulagið í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna.

„Á einum tímapunkti vildu þau láta fjarlægja lýsinguna „loftslagsbreytingar“ og hindruðu vísanir í Parísarsamkomulagið og aðra alþjóðasáttmála um málið. Samræðurnar hafa þó batnað undanfarna tvo daga,“ sagði einn heimildamannanna.

Segir Washington Post spennuna vegna yfirlýsingar Norðurskautsráðsins vera nýjasta dæmið um vilja Trump stjórnarinnar að rjúfa tengsl við bandamennn og aðrar þjóðir varðandi viðhorf til loftslagsmála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert