Í minningu móður

AFP

Á nokkurra mánaða fresti þarf ég að setjast niður með þeim sem rannsakar morðið á móður minni. Fjölskyldan hitti hann fyrst fyrir sex árum en þá kom hann heim til okkar til að handtaka hana. Móðir mín hafði birt háð á bloggi sínu um frambjóðanda í þingkosningum á Möltu en viðkomandi sóttist eftir embætti forsætisráðherra.Stuðningsmaður hans hafi tilkynnt bloggið til lögreglu. Þannig hefst grein sem Matthew Caruana Galizia sem er rannsóknarblaðamaður líkt og móðir hans, Daphne Caruana Galizia, sem var drepin með bílsprengju í október 2017. Í dag er alþjóðlegur dagur fjölmiðlafrelsis. 

Útlitið það síðasta sem kemur upp í hugann

„Þannig að rannsóknarlögreglumaðurinn var sendur á heimili fjölskyldu okkar um miðja nótt með undirritaða handtökuskipun fyrir glæp sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en ólöglegri tjáningu. 

Ég var að vinna hinum megin á hnettinum og fólk sendi mér myndskeið af því þar sem hún var látin laus á lögreglustöðinni klukkan 01:30 klædd í skyrtu föður míns. 

Nokkrum tímum síðar var hún aftur komin á netið og skrifaði um þessa misnotkun, á milli línanna þar sem hún gerði grín að óöryggi nýs forsætisráðherra og gerði grín að eigin útliti,“ skrifar hann og vísar í skrif móður sinnar þessa nótt þar sem hún biðst afsökunar á ringulreiðinni þessa nótt. Ekki sé samt við öðru að búast þegar fulltrúar í morðdeild lögreglunnar mæta heim til þín um miðja nótt. „Að greiða þér, setja á þig púður og kinnalit. Að klæða sig í samstæð föt er það síðasta sem kemur upp í hugann,“ skrifaði hún. 

Blómum og kertum var komið fyrir í minningu Daphne Caruana …
Blómum og kertum var komið fyrir í minningu Daphne Caruana Galizia í Valetta á Möltu. AFP

Nú er sami rannsóknarlögreglumaður ábyrgur á rannsókn á morðinu á henni. „Daginn sem móðir mín, Daphne Caruana Galizia, var drepin var hún að fara í bankann til þess að fá aðgang að bankareikningi sínum að nýju en hann hafði verið frystur að beiðni ráðherra í ríkisstjórninni. Hún var nýlega orðin 53 ára að aldri og var á hátindi 30 ára ferils sem blaðamaður,“ skrifar Matthew Caruana Galizia.

Hálfu kílói af TNT sprengiefni hafði verið komið fyrir undir sæti í bifreið hennar. Stuðningsmenn ríkisstjórnar Möltu fögnuðu morðinu opinberlega og segir Galizia það minna hann á þá sem fögnuðu því þegar ritstjórinn Hrant Dink var skotinn til bana. 

Tímalína frá morði Daphne Caruana Galizia 

  • Október 2017. Galiszia drepin með bílsprengju
  • Forsætisráðherra Möltu Joseph Muscat lýsir morðinu sem villimennsku. Fjölskylda hennar bannar stjórnmálaleiðtogum að vera viðstaddir útförina
  • Desember 2017. Þrír menn eru handteknir og rannsakað er hvort mögulega hafi verið ráðinn leigumorðingi til verksins.
  • Júlí 2018. Niðurstaða opinberrar rannsóknar birt og þar er forsætisráðherrann og eiginkona hans hreinsuð af sök um spillingu sem Galizia hafði sakað þau um.
  • Ágúst 2018. Fjölskylda Daphne Caruana Galizia krefst opinberrar rannsóknar á því hvort yfirvöld á Möltu hafi getað komið í veg fyrir morðið.

Matthew Caruana Galizia lýsir í greininni lífi fjölskyldunnar eftir morðið og þeim stuðningi sem hún hafi fengið erlendis frá og hversu litla þolinmæði þau hafi gagnvart aðgerðarleysi stjórnvalda í rannsókninni.

Börn tyrkneska rannsóknarblaðamannsins Uğur Mumcu, sem einnig var drepinn með bílsprengju, hafi sagt Matthew að afsökunin sem lögreglustjórinn hafi borið fyrir sig við þau kvörtuðu yfir seinagangi og aðgerðarleysi var sú að lögreglan hafi ekki getað gert neitt vegna múrsteinsmúrsins sem þeir stóðu frammi fyrir við rannsóknina.

Móðir þeirra hafi svarað lögreglustjóranum að bragði að þeir ættu að fjarlægja múrsteinana hvern á fætur öðrum þangað til múrinn væri horfinn. Það sé í raun það sem fjölskylda Galiziu hafi reynt að gera frá morðinu. Þau hvetji til breytinga í þjóðfélaginu og aukinnar virðingar fyrir tjáningarfrelsinu. Að ríkið standi við skyldur sínar og láti réttvísina ná fram að ganga. 

„Frelsið hefst með frelsun samviskunnar,“ sagði rithöfundurinn Yameen Rasheed fimm dögum áður en hann var stunginn til bana fyrir utan heimili sitt á Maldíves-eyjum árið 2017. 

Vettvangur starfs blaðamanna í París á 1. maí.
Vettvangur starfs blaðamanna í París á 1. maí. AFP

„Dagurinn í dag er tileinkaður frelsi fjölmiðla um allan heim. Um leið er hann haldin hátíðlegur í minningu þeirra fjölmiðlamanna og blaðamanna sem hafa látið lífið við störf. Alþjóðlegur dagur fjölmiðlafrelsis (World Press Freedom Day) var settur á laggirnar árið 1993 af allsherjaþingi Sameinuðu þjóðanna í kjölfar ályktunar sem hafði verið samþykkt á allsherjarþingi UNESCO tveimur árum áður.

„Lýðræði stendur ekki undir nafni án aðgangs að gagnsæjum og áreiðanlegum upplýsingum. Það er hornsteinn sanngjarnra og óvilhallra stofnana sem draga valdhafa til ábyrgðar og segja valdamönnum sannleikann,” er haft eftir António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni dagsins.

Tilgangurinn með þessum alþjóðlega degi fjölmiðlafrelsis er að minna stjórnvöld um allan heim á nauðsyn þess að virða alþjóðlegar skuldbindingar um fjölmiðlafrelsi. Dagurinn er einnig ætlaður til umhugsunar innan stétta fjölmiðlafólks um málefni þessu tengd og siðferði blaðamennsku. Ekki er síður mikilvægt að á þessum degi ber að styðja fjölmiðla sem verða fyrir barðinu á takmörkunum eða afnámi fjölmiðlafrelsis. Jafnframt er minnst blaðamanna sem hafa týnt lífi við skyldustörf.

Höfum í huga að á síðustu sex árum hafa ríflega 600 blaðamenn verið drepnir. Í níu af hverjum tíu tilfellum hefur ekki tekist að refsa hinum seku. Þessu til viðbótar hafa hundruð blaðamanna verið handteknir en handtökur blaðamanna eru daglegt brauð víða um heim. Þá er ráðist á þá, þeim misþyrmt og þeim hótað með margvíslegum hætti. Undanfarið hafa blaðamenn orðið að upplifa nýjar hættur sem felast í ógnunum sem koma frá netinu þar sem hótanir um að gögn þeirra eða heimildarmenn verði afhjúpuð eru að færast í aukana,“ skrifar Sigurður Már Jónsson í tilefni dagsins á vef Blaðamannafélags Íslands.

Frétt BBC    

Frétt AP

Frambjóðendur sagðir látnir til auka möguleika keppinauta

„Í heimalandi mínu, Sómalíu, er upplýsingafölsun svo algeng að nokkrir frambjóðendur voru sagðir látnir eða teknir úr umferð skömmu fyrir kosningar svo keppinautar þeirra ættu meiri möguleika á sigri,“ segir Hussein Abdi Adam sem starfar við kosningaeftirlit í Sómalíu. 

Fjölmargir blaðamenn eru samankomnir í Eþíópíu til að ræða frelsi fjölmiðla. Þar í landi hefur frumvarp til laga verið lagt fram til þess að verjast hatursorðræðu og upplýsingafölsun. Slík ráðstefna hefur aldrei áður verið haldin í þessu ríki í Austur-Afríku. Ríki sem frekar hefur verið þekkt fyrir að gera blaðamönnum erfitt um vik að sinna starfi sínu.

Þegar Abiy Ahmed tók við embætti forsætisráðherra fyrir ári síðan breyttist margt í lífi eþíópískra blaðamanna og síðan þá hafa nokkrir tugir blaðamanna verið látnir lausir úr haldi. Í dag er enginn blaðamaður á bak við lás og lás í Eþíópíu og ný útgáfufyrirtæki blómstra. Undanfarið ár hefur Abiy heimilað 260 vefsíðum, sem hafði verið lokað í tíð fyrri valdhafa, að hefja starfsemi að nýju og blaðamenn sem höfðu flúið land hafa snúið heim.

í dag er alþjóðlegur dagur fjölmiðlafrelsis.
í dag er alþjóðlegur dagur fjölmiðlafrelsis. AFP

Utanríkisráðherra Bretlands, Jeremy Hunt, er einn þeirra sem ávarpaði ráðstefnuna. Hann segir að fjölmiðlafrelsi sé ekki eitthvað vestrænt hugtak og sennilega blómstrar frelsi fjölmiðla á fáum stöðum jafn vel og í Afríku. „Í heimi þar sem 99 blaðamenn voru drepnir í fyrra og 348 fangelsaðir af stjórnvöldum þá er bjartsýnin einna mest þar sem maður á síst von á því - hér í Afríku,“ sagði hann.

Í dag fengu tveir blaðamenn Reuters, þeir Kyaw Soe Oo and Wa Lone, UNESCO/Guillermo Cano fjölmiðla frelsisverðlaunin. Þeir afplána nú sjö ára fangelsisdóm í Búrma fyrir fréttaflutning af hrottalegri herferð hersins þar í landi gagnvart rohingjum. 

Norðurlönd hafa verið ofarlega á lista Blaðamanna án landamæra yfir þau ríki heims þar sem fjölmiðlafrelsi er mest. Noregur er efst árið 2019, þriðja árið í röð og Finnland þokast upp um tvö sæti og í annað sæti á kostnað Hollands. Svíar hafa þokast niður um eitt sæti vegna harðræðis á netinu, en þeir voru númer tvö.  Danmörk (5) réttir úr kútnum en hafði færst niður vegna morðsins á sænsku blaðakonunni Kim Wall. Ísland er í fjórtánda sæti og lækkar um eitt sæti. Frá 2012 hefur Ísland lækkað vegna "versnandi samskipta stjórnmálamanna og blaðamanna."

Mörg alræðisríki hafa fallið niður listann. Þar á meðal er Venesúela en þar hafa blaðamenn sætt handtökum og harðræði af hálfu yfirvalda. Rússland lækkar líka en stjórnvöld hafa handtekið blaðamenn, gert handahófskenndar húsleitir og sett lög til að þrýsta á óháða fjölmiðla og vefinn.

Túrkmenistan er neðst á listanum, en þar hafa mjög fáir aðgang að netinu í ritskoðaðri mynd. Norður-Kórea var áður í neðsta sæti, segir á vef upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert