Látnar lausar ein af annarri

Aziza al-Yousef.
Aziza al-Yousef. AFP

Fjórar baráttukonur voru látnar lausar úr haldi í Sádi-Arabíu í gær og hafa því alls sjö konur verið látnar lausar úr haldi af þeim 11 aðgerðarsinnum sem  hafa setið á bak við lás og slá mánuðum saman án ákæru.

Ísland leiddi hóp ríkja í gagn­rýni á stöðu mann­rétt­inda­mála í Sádi-Ar­ab­íu í mann­rétt­indaráði Sam­einuðu þjóðanna fyrr á árinu. Er það í fyrsta skipti sem Sádi-Ar­ab­ía sæt­ir slíkri sam­stilltri gagn­rýni í ráðinu og mark­aði frum­kvæðið því tíma­mót.

Aðgerðasinnarnir sem voru látnir lausir í gær eru Hatoon al-Fassi, Amal al-Harbi, Maysaa al-Manea og Abeer Namankani en þær voru, líkt og Eman al-Nafjan, Aziza al-Yous­ef og Roqaya al-Mohareb, látnar lausar tímabundið. Þetta kemur fram í Twitter-færslu mannréttindasamtakanna ALQST.

Konurnar hafa sætt kynferðislegu ofbeldi og öðrum pyntingum í haldi en þær eru allar sakaðar um samskipti við erlenda fjölmiðla, erlenda stjórnarerindreka og mannréttindasamtök.

Samtök sem fylgjast með pólitískum föngum í Sádi-Arabíu, Prisoners of Conscience, hafa greint frá lausn fimmtu konunnar, háskólanemandanum Shadan al-Anezi. En það hefur ekki fengist staðfest hjá stjórnvöldum. Fjölskyldur að minnsta kosti tveggja kvenna til viðbótar höfðu verið boðaðar í réttarsal með stuttum fyrirvara en snúið við þegar þær komu þangað og vonir þeirra gerðar að engu um að ástvinur þeirra yrði látinn laus gegn tryggingu.

Í síðasta mánuði létu yfirvöld í Sádi-Arabíu handtaka að minnsta kosti níu rithöfunda og fræðimenn, þar á meðal tvo bandaríska ríkisborgara, sem taldir eru vera stuðningsmenn kvennanna sem hafa setið í fangelsi án ákæru mánuðum saman. Meðal þeirra er sonur einnar þeirra sem nú hefur verið látin laus. Sonur Aziza, Salah al-Haidar, er annar Bandaríkjamannanna sem er í haldi. Þetta eru fyrstu hóphandtökurnar á aðgerðasinnum í landinu frá því blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var drepinn með hrottalegum hætti inni á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbul.

Bróðir Loujain al-Hathloul, sem er ein þeirra sem var látin laus í gær, hefur greint frá því að fjölskyldan hafi verið beitt þrýstingu af hálfu fólks sem er nátengt stjórn landsins að þegja um meðferðina sem konurnar hafa sætt í varðhaldi. Hathloul er meðal þeirra kvenna sem hefur greint frá pyntingum og kynferðislegu ofbeldi í haldi.

Í mars rufu sumar kvennanna þögnina um meðferðina í varðhaldi. Sökuðu þær mennina sem yfirheyrðu þær um að hafa beitt þær raflosti, barsmíðum og þuklað hafi verið á þeim. Saksóknari neitaði að þetta væri satt við réttarhöldin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert