Her Norður-Kóreu skaut í nótt á loft nokkrum skammdrægum eldflaugum og eru það fyrstu eldflaugatilraunir sem ríkið hefur gert frá því í nóvember 2017.
Eldflaugunum var skotið á loft á haf út frá Hodo skaganum sem er í austurhluta landsins, að því er BBC hefur eftir starfsmannastjóra hers Suður-Kóreu.
Eru þetta fyrstu eldflaugatilraunirnar sem norður-kóreski herinn hefur gert frá því leiðtogafundi þeirra Donald Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, í Víetnam í febrúar lauk án þess að samkomulag næðist. Hafnaði Trump samningsumleitunum Kims á fundinum og lýsti þeim sem „slæmum samningi“.
Tilraunir með skammdrægar eldflaugar brjóta ekki í bága við loforð Norður-Kóreu um að gera ekki prófanir á langdrægum flaugum. Svo virðist engu að síður vera sem stjórnvöld í Norður-Kóreu séu að missa þolinmæðina gagnvart bandarískum stjórnvöldum sem ekki vilja létta á viðskiptaþvingunum sínum fyrr en Norður-Kórea hefst handa af fullri alvöru við að leggja niður kjarnorkuvopnaáætlun sína.
Þannig greindu ráðamenn í Norður-Kóreu frá því í síðasta mánuði að ríkið væri búið að vera að gera tilraunir með vopn sem það kvað vera „nýja gerð fjarstýrða vopna“.