Yrði væntanlega hengd

Shamima Begum, breskur ríkisborgari sem gekk til liðs við íslamska …
Shamima Begum, breskur ríkisborgari sem gekk til liðs við íslamska ríkið, hefur verið svipt ríkisborgararétti sínum. AFP

Afar ólíklegt þykir að Shamima Begum verði send til Bangladess, þaðan sem foreldrar hennar eru, en ef það verður gert á hún jafnvel yfir höfði sér dauðarefsingu fyrir aðild að hryðjuverkum.

Innanríkisráðherra Bretlands, Sajid Javid, svipti Begum breskum ríkisborgararétti í febrúar eftir að hún fannst í flóttamannabúðum í Sýrlandi. Hún yfirgaf Bretland til þess að ganga til liðs við vígasamtökin Ríki íslams árið 2015.

Guardian fjallar um mál hennar í dag en þar kemur fram að samkvæmt alþjóðalögum er ólöglegt að svipta einhvern ríkisborgararétti verði það til þess að viðkomandi verði ríkisfangslaus. Talið var að Begum myndi fá ríkisborgararétt í Bangladess í gegnum fjölskyldu sína en svo er ekki.

Utanríkisráðherra Bangladess, Abdul Momen, sagði í viðtali við ITV News að ríkið hefði ekkert með Shamima Begum að gera. Hún sé ekki ríkisborgari og hafi aldrei sótt um að verða það. Hún er fædd á Englandi og móðir hennar er bresk.

„Ef einhver er fundinn sekur um að eiga aðild að hryðjuverkum eru lög okkar einföld. Það er saknæmt og ekkert annað. Hún yrði sett í fangelsi og væntanlega yrði dómurinn að hún verði hengd.“

Lögmaður fjölskyldu Begun, Tasnime Akunjee, segir að Momen hafi staðfest það sem blasir við. Að Begum hafi fæðst, alist upp og öfgavæðst í Bretlandi og væri ekki á nokkurn hátt vandamál Bangladess.

Sonur Begum, Jarrah, lést úr lungnabólgu tæplega þriggja vikna gamall í flóttamannabúðum í Sýrlandi. Begum segist sjálf hafa verið heilaþvegin af Ríki íslams og að hún sé ekki sammála öllu því sem vígasamtökin hafi gert. Hún hafi ekki tekið þátt í hryðjuverkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert