Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hyggst ekki afhenda þingmönnum Demókrataflokksins skattaskýrslur Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Þessu greindi Steven Mnuchin fjármálaráðherra frá í dag en þingið hefur krafist þess að fá skýrslurnar.
Fram kemur í bréfi Mnuchin til formanns þingnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem hefur málið til skoðunar að kröfu þingsins skorti lögmætan tilgang. Fyrir vikið teldi fjármálaráðuneytið sig ekki hafa heimild til þess að afhenda skattaskýrslurnar.
Viðbúið þykir að neitun fjármálaráðuneytisins kalli á frekari árekstra á milli ríkisstjórnar Trumps og fulltrúardeildarinnar hvar demókratar hafa meirihluta þingmanna. Þingnefndin hafði á grundvalli lagaheimildar farið fram á að fá afhentar skattaskýrslur forsetans fimm ár aftur í tímann sem og átta af þeim fyrirtækjum sem eru í eigu hans.
Samkvæmt fréttinni hefur Mnuchin ítrekað farið út fyrir tímamörk sem þingnefndin hefur sett varðandi kröfu sína. Hefur ráðherrann varað við því að engin fordæmi væru fyrir kröfunni, hún vekti upp stjórnskipulegar spurningar og ógnaði persónuvernd skattgreiðenda. Þá hefði ákvörðunin verið tekin í samráði við dómsmálaráðuneytið.
Trump varð fyrsti forsetaframbjóðandinn í áratugi sem ekki opinberaði skattaskýrslur sínar í tengslum við forsetaframboð sitt þegar hann tók þátt í forsetakosningunum 2016 segir í fréttinni. Þá hefur hann ekki slitið tengsl sín við viðskiptaveldi sitt sem vakið hafa upp ásakanir um mögulega hagsmunaárekstra í embættisfærslum hans.