Komst brak úr vélinni inn í hreyflana?

Rannsókn er hafin á eldi sem kom upp í farþegaþotu sem nauðlenti á aðalflugvellinum í Moskvu í gær. 41 lét lífið, þar af tvö börn. Alls voru 78 um borð, 73 farþegar og fimm manna áhöfn. Sam­kvæmt flug­mála­yf­ir­völd­um lifðu aðeins 37 flug­slysið af.

Farþegaþotan hafði verið á leið frá Moskvu til borgarinnar Murmansk, en henni var snúið við skömmu eftir flugtak og fékk að nauðlenda eftir að hafa hringsólað um stund yfir flugvellinum. Myndbandsupptökur hafa sýnt hvar vélin sem er af gerðinni Sukhoi Superjet 100 skoppar eftir flugbrautinni áður en eldurinn blossar upp.

Fjöldi farþega sést því næst flýja í gegnum neyðarútganga vélarinnar, sem blésu upp eftir harkalega lendinguna. Ein flugfreyja er meðal þeirra sem létust, en fimm manns eru enn á sjúkrahúsi.

BBC hefur eftir einu vitnanna að atburðinum að það hafi verið „kraftaverk“ að einhverjir sluppu lifandi.  

Ekki liggur enn fyrir hvað olli eldinum, en rússneska samgönguslysanefndin hefur hafið rannsókn á málinu og er m.a. að skoða hvort flugmenn vélarinnar hafi brotið flugöryggisreglur.

Misstum næstum meðvitund af ótta

Sumir farþeganna hafa sagt þrumuveður og slæmt veður ástæðu þess að það kviknaði í vélinni. „Við fórum á loft og svo fékk vélin í sig eldingu,“ hefur dagblaðið Komsomolskaya Pravda eftir einum farþeganna, Pyotr Egorov.

„Vélin sneri við og síðan var harkaleg lending. Við vorum svo óttaslegin að við misstum næstum meðvitund. Vélin hoppaði um á flugbrautinni eins og engispretta og svo kviknaði í henni á jörðunni.“

Reuters-fréttaveitan segir þá Vladimír Pútín Rússlandsforseta og forsætisráðherrann Dmitry Medvedev hafa þegar sent samúðarkveðjur til ættingja þeirra sem létust og hafa skipað rannsakendum að komast að því hvað gerðist.

Interfax-fréttaveitan hefur eftir ónefndum heimildamanni, sem sagður er vel inni í málinu, að krafa nokkurra farþega að taka með sér handfarangur úr vélinni hafi valdið töfum á að koma farþegum út.

Tókst ekki að nauðlenda fyrr en í annarri tilraun

Á flugvefnum Flightradar24 má sjá að farþegaþotan hringsólaði tvisvar yfir Moskvu áður en henni var lent, eftir að hafa verið aðeins hálftíma á flugi. Undirvagn vélarinnar brotnaði svo við lendingu og það kviknaði í hreyflunum.

Hefur Interfax eftir heimildamanni að neyðarlending hafi ekki tekist fyrr en í annarri tilraun og að nokkuð af búnaði vélarinnar hafi bilað. Þar sem nauðlendingin var mjög harkaleg hafi brak úr undirvagninum komist inn í hreyflana og það hafi valdið eldi sem á svipstundu umlukti allan afturhluta farþegaþotunnar.

Rannsakendur segjast þó vera að skoða mögulegar útgáfur af hvað hafi gerst.

Að sögn rússneskra fjölmiðla var farþegaþotan framleidd árið 2017 og fór hún síðast í gegnum skoðun í apríl á þessu ári.

Vilja að Aeroflot noti rússneskar vélar

Langt er síðan rússneska Aeroflot-flugfélagið hristi af sér lélegt orðspor öryggismála í kjölfar hruns Sovétríkjanna og er flugvélafloti flugfélagsins sem flýgur bæði Boeing- og Aeroflot-vélum í millilandaflugi nú með þeim nýrri.

Rússneskir embættismenn eru mjög áfram um að Aeroflot fjölgi rússnesku Sukhoi Superjets-vélunum í flota sínum fyrir innanlandsflug til að renna styrkari stoðum undir flugvélaiðnað landsins. Superjet vélarnar komu fyrst á markað 2011 og voru fyrstu nýju flugvélarnar sem framleiddar voru í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna.

Vélarnar eru smíðaðar í austurhluta Rússlands og hrapaði vél þessarar tegundar í Indónesíu árið 2012 með þeim afleiðingum að allir 45 sem um borð voru létust. Voru mannleg mistök sögð ástæða slyssins. Í gegnum tíðina hafa þó reglulega komið fram áhyggjur af öryggi og áreiðanleika vélanna og voru þær m.a. kyrrsettar í desember 2016 eftir að galli uppgötvaðist í stélhlutanum.

Rússnesk yfirvöld segja þó of snemmt að ræða kyrrsetningu vélanna nú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert