Mjaldurinn bjargaði símanum úr sjónum

Mjaldurinn áður en ólarnar voru teknar af honum. Honum var …
Mjaldurinn áður en ólarnar voru teknar af honum. Honum var valið nafnið Hvaldimir í netkosningu í Noregi. AFP

Mjaldurinn Hvaldimir, sem grunur leikur á að rússneski herinn hafi verið með í þjálfun til njósnastarfa, vakti heldur betur lukku hjá norskum ungmennum er hann bjargaði síma eins þeirra upp af sjávarbotni.

Hvaldimir hefur fengið mikla athygli í Noregi undanfarið, eftir að norsk­ur sjó­maður fjar­lægði í lok síðasta mánaðar ólar sem fast­ar voru á honum. Mjaldurinn hefur í kjölfarið haldið sig nærri ströndum Noregs og hafa margir gert sér ferð til að skoða hann, enda virðist hann einkar mannelskur.

Það var því um þrjúleytið aðfaranótt sunnudags er Isa Larsson og vinir hennar voru á heimleið eftir eftir bæjarferð að þau ákváðu að líta við á bryggjunni í Hammerfest og kíkja á mjaldurinn.

„Það er lítil flotbryggja þarna og við lögðumst á magann og sulluðum í sjónum,“ segir Larsson í samtali við norska Dagbladet.

Hvaldimir kom og heilsaði upp á ungmennin, en svo óheppilega vildi til að ein stúlknanna missti síma sinn í sjóinn.

Hún taldi símann vera horfinn fyrir fullt og allt, en þá hvarf Hvaldimir og var horfinn um stund. Síðan skaut mjaldrinum upp á nýjan leik og var hann þá með símann í kjaftinum.

Eins og hann vildi vera verðlaunaður

„Við vorum alveg í áfalli þegar hann kom upp aftur og var með símann í kjaftinum,“ segir Larsson. Við fengjum að strjúka honum og það var alveg eins og hann vildi láta verðlauna sig. Þetta var virkilega skemmtilegt og einstakt.“

Óljóst er hins vegar hvort síminn lifði sjóferðina af. „Hann liggur núna á hrísgrjónum í ofninum meðan verið er að þurrka hann,“ segir hún.

Jør­gen Ree Wiig, hjá norsku haf­rann­sókn­ar­stofn­un­inni, hefur viðrað þá skoðun sína við fjölmiðla að skoða hvort flytja megi Hvaldimir til Vestmannaeyja í mjaldraathvarfið þar sem mjaldrarnir Litla-Grá og Litla-Hvít eiga að dvelja. Páll Mar­vin Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Þekk­ing­ar­set­urs Vest­manna­eyja, sagði hins vegar í sam­tali við mbl.is um helgina að slíkt væri ólíklegt, þar sem of mikil vinna sé nú fram undan við að koma mjöldrunum tveimur frá Sjanghæ til Eyja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert