Rússneska flugslysanefndin telur mistök flugmanna vera helstu orsök þess að kviknaði í farþegaþotu Aeroflot-flugfélagsins sem nauðlenti á alþjóðaflugvellinum í Moskvu á sunnudag með þeim afleiðingum að 41 fórst.
Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá þessu og segir að þótt enn hafi ekki borist yfirlýsing frá flugslysanefndinni hafi rússneskir fjölmiðar eftir sérfræðingum nefndarinnar að flugmennirnir hafi gerst sekir um röð mistaka sem leitt hafi til brunans.
Að sögn rússnesku Interfax-fréttaveitunnar var mikið óveður yfir Moskvu þegar vélin, sem var af gerðinni Sukhoi Superjet, fór í loftið og hefðu flugmennirnir ekki átt að fljúga í gegnum veðrið líkt og þeir gerðu. Á flugstjórinn, Denis Jevdokimov, að hafa sagt vélina hafa misst talstöðvarsamband eftir að hún varð fyrir eldingu og í kjölfarið hafi þeir orðið að taka sjálfstýringuna af.
Eftir eldinguna óskuðu flugmennirnir eftir að fá að nauðlenda á Sjeremetjevo-flugvellinum, en vélin var á leið til Murmansk og hafði bara verið hálftíma á flugi er henni var nauðlent.
RIA Novosti-fréttaveitan segir að þar sem eldsneytistankar vélarinnar hafi verið fullir hafi mikil þyngd vélarinnar í lendingu haft áhrif. Hefðu flugmennirnir hins vegar flogið í tvo tíma yfir borginni hefðu þeir náð að brenna upp megnið af eldsneytinu og fyrir vikið hefði vélin verið léttari og eins í henni minni eldsmatur er hún nauðlenti.
Loks hafa rússneskir miðlar bent á að þotan hafi komið hratt inn til lendingar og hafi lækkað flugið of hratt.