Ósáttir við að kosið verði aftur

Stuðningsmenn borgarstjóra Istanbúl, Ekrem Imamoglu, mótmæltu ákvörðun yfirkjörstjórnar á götum …
Stuðningsmenn borgarstjóra Istanbúl, Ekrem Imamoglu, mótmæltu ákvörðun yfirkjörstjórnar á götum borgarinnar í gær. AFP

Sú ákvörðun yfirkjörstjórnar Tyrklands að fyrirskipa að kosið verði á ný í Istanbúl eftir að stjórnarandstöðuflokkur fór með sigur af hólmi í kosningum í borginni í mars hefur sætt harðri gagnrýni að því er BBC greinir frá.

AK, flokkur forsetans, Recep Tayyip Erdogan, hafði fullyrt að sigur stjórnarandstöðuflokksins CHP mætti rekja til spillingar og óreglu í kosningunum og fór fram á endurtalningu er úrslitin lágu fyrir.

Ekrem Imamoglu, oddviti CHP-flokksins, sem var kjörinn borgarstjóri Istanbúl í síðasta mánuði, segir ákvörðun yfirkjörstjórnarinnar „sviksamlega“.

Þegar hefur komið til mótmæla í Istanbúl vegna kosninganna sem halda á 23. júní. Þannig komu hundruð saman í nokkrum hverfum borgarinnar í gær, þar sem þeir börðu í potta og pönnur og hrópuðu slagorð gegn stjórnvöldum.

Evrópuþingið hefur einnig lýst því yfir að sú ákvörðun að endurtaka kosningarnar muni skaða trúverðugleika lýðræðislegra kosninga í Tyrklandi.

Fulltrúi AKP-flokksins í kjörstjórn, Recep Ozel, segir ástæðu þess að kjósa þurfi á ný vera þá að ekki voru allir starfsmenn kosninganna opinberir starfsmenn og þá hafi skrár yfir niðurstöðu kosninganna ekki haft rétta undirskrift í öllum tilfellum.

Onursal Adiguzel, varaformaður CHP, segir ákvörðunina hins vegar sýna að „það sé ólöglegt að sigra AKP“. Ákvörðunin væri dæmi um „hreinræktað einræði“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert