„Þessu verður að ljúka“

Pamela Anderson og Kristinn Hrafnsson fyrir utan öryggisfangelsið þar sem …
Pamela Anderson og Kristinn Hrafnsson fyrir utan öryggisfangelsið þar sem Assange afplánar nú dóm sinn. Skjáskot/Facebook-síða Ruptly

Krist­inn Hrafns­son, rit­stjóri Wiki­Leaks, og leik­kon­an Pamela And­er­son voru í dag fyrstu gest­ir sem Ju­li­an Assange, stofn­andi Wiki­Leaks, hef­ur fengið eft­ir að hann var flutt­ur í ör­ygg­is­fang­elsi í Lund­ún­um.

Mánuður er frá því Assange var hand­tek­inn í sendi­ráði Ekvador í borg­inni og var hann í síðustu viku dæmd­ur í 50 vikna fang­elsi fyr­ir að brjóta regl­ur varðandi reynslu­lausn sína í Bretlandi fyr­ir sjö árum. Banda­rísk stjórn­völd hafa einnig farið fram á að fá hann fram­seld­an fyr­ir að hafa framið sam­særi um tölvu­inn­brot ásamt upp­ljóstr­ar­an­um Chel­sea Mann­ing árið 2010.

„Ég held að ég tali fyr­ir okk­ur bæði, þegar ég segi að við séum í til­finn­inga­legu upp­námi eft­ir þessa fyrstu heim­sókn sem Ju­li­an hef­ur verið leyft að fá eft­ir að hafa verið hér inni í mánuð,“ sagði Krist­inn eft­ir heim­sókn­ina.

Ruptly-frétta­vef­ur­inn birti á Face­book-síðu sinni viðtal við þau Krist­in og And­er­son fyr­ir utan fang­elsið.

„Hvað mig varðar er áfall að sjá vin minn, gáfu­menni, út­gef­anda og blaðamann sem hef­ur umbreytt fjöl­miðlaheim­in­um með verk­um sín­um. Að sjá hann sitja í ör­ygg­is­fang­elsi og dvelja þar í fanga­klefa 23 tíma á sól­ar­hring og fá að vera ut­an­dyra hálf­tíma á dag, ef veður leyf­ir og hafa hálf­tíma til viðbót­ar til að gera allt annað, það er ekki rétt­læti,“ sagði Krist­inn og bætti við: „Þetta er viður­styggð.“

Heim­sókn í ör­ygg­is­fang­elsið bæri bresku sam­fé­lagi ekki gott vitni.

„Þessu verður að ljúka,“ sagði hann. „Þetta verður bar­átta, en ég get sagt að Ju­li­an Assange er beygður en ekki brot­inn. Hann er mjög úrræðagóður maður og ég vil að þið hugsið til þess að slík seigla kem­ur frá því að hann veit að hann er sak­laus og hef­ur ekk­ert gert af sér. Hann veit að hann sæt­ir of­sókn­um fyr­ir það eitt að sinna blaðamennsku.“

Pamela bætti við að erfitt hefði verið að sjá Assange í fang­els­inu. „Hann á ekki skilið að vera í ör­ygg­is­fang­elsi því hann hef­ur aldrei gerst sek­ur um of­beld­is­brot. Hann er sak­laus.“ Sagði hún Assange hvorki hafa aðgang að bóka­safni né tölvu. Hann væri ein­angraður frá um­heim­in­um og hafi til að mynda ekki geta talað við börn­in sín. „Hann þarf all­an þann stuðning sem hann get­ur fengið. Hann er góður maður og ótrú­leg mann­eskja, sem mér þykir vænt um.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert