Evrópusambandið og fjölmargir stjórnmálaleiðtogar í Evrópu gagnrýna harðlega þá ákvörðun tyrkneskra yfirvalda að láta endurtaka borgarstjórakosningarnar í Istanbúl, stærstu borg landsins. Réttlætis- og þróunarflokkur forsetans Recep Tayiip Erdogan, AKP, tapaði borgarstjórastólnum í borginni naumlega í aprílmánuði, en Erdogan hefur neitað að sætta sig við tapið.
Nú hefur verið tekin ákvörðun um að endurtaka kosningarnar og að þær fari fram 23. júní næstkomandi. Ákvörðuninni hefur verið mótmælt á götum úti í Istanbúl og erlendir stjórnmálamenn hafa fordæmt hana.
Kjörnefndin rökstyður ákvörðun sína með því að ótilgreindur fjöldi manna sem störfuðu við kosningarnar hefðu ekki verið ríkisstarfsmenn og að undirskriftir hafi vantað á einhverja talningarseðla. Kosningar unnust á minnsta mun, eða 14.000 atkvæðum, í þessari milljónaborg.
Í frétt BBC um málið kemur fram að talsmaður Evrópusambandsins hafi kallað eftir því að tyrknesk yfirvöld útskýri ákvörðunina án tafar. Heiko Mass, utanríkisráðherra Þýskalands, hefur kallað ákvörðunina „óskiljanlega“ og ríkisstjórn Frakklands hefur gagnrýnt þennan ráðahag.
Belgíski Evrópuþingmaðurinn Guy Verhofstadt sagði á Twitter að Tyrkland væri að „reka í átt að einræði“ undir stjórn Erdogans og að þessi ákvörðun gæti sett alvarlegt strik í reikninginn varðandi áframhald viðræðna um aðild Tyrklands að ESB.
Ekrem Imamoglu, sem bauð sig fram til borgarstjóra fyrir stjórnarandstöðuflokkin CHP og hafði betur gegn frambjóðanda AKP, segir ákvörðunina „viðsjárverða“. Flokkur hans sakar kjörnefndina sem tók þessa umdeildu ákvörðun um að láta undan þrýstingi frá Erdogan í málinu.
Varaformaður flokksins, Onursal Adiguzel, segir að þessi ákvörðun kjörnefndarinnar sýni að það sé „ólöglegt að sigra gegn AKP“.
Erdogan sjálfur segir að það að endurtaka kosningarnar sé „besta skrefið“ fyrir landið og að kosningarnar hafi verið ólöglegar. Það að endurtaka þær sé „mikilvægt skref til að styrkja lýðræðið“.
Þessi umdeilda ákvörðun mun þó, samkvæmt frétt BBC, ekki hafa fallið í kramið hjá öllum innan flokks hans. Abdullah Gül, forveri Erdogans á forsetastóli, mun vera að íhuga að kljúfa sig frá flokknum vegna málsins og stofna nýjan flokk.