Jerome Kunkel, 18 ára framhaldsskólanemi í Kentucky-ríki í Bandaríkjum, er kominn með hlaupabólu.
Það væri ef til vill ekki í frásögur færandi, nema af þeirri ástæðu að hann sjálfur komst í fréttirnar fyrir skemmstu, fyrir að kæra skólann sinn fyrir að banna óbólusettum að mæta í skólann á meðan smitfaraldur stóð yfir.
Hann sjálfur fékk ekki að leika körfubolta með körfuboltaliði Our Lady of the Sacred Hears-framhaldsskólans, þar sem hann var óbólusettur og taldi það brjóta gegn réttindum sínum.
Fjallað er um smit Kunkel á vef BBC. Þar segir að Cristopher Weist, lögmaður pilts, hafi tjáð fjölmiðlum vestanhafs í dag að Kunkel hafi smitast af hlaupabólu í síðustu viku.
Weist sagði hann þó ekki sjá eftir því að hafa ekki látið bólusetja sig, en Kunkel og fjölskylda hans eru óbólusett af trúarlegum ástæðum, en þau eru kaþólikkar.
Bill Kunkel, faðir piltsins, hefur vísað til þess að frumur úr lífvana fóstrum hafi verið notaðir til þess að framleiða bóluefni og að það stríði gegn trú fjölskyldunnar.
Hlaupabóla er eins og flestir vita afar smitandi, en oftast ekki lífshættuleg. Áður en bólusetning gegn hlaupabólu var tekin upp í Bandaríkjunum fengu um fjórar milljónir manna hlaupabólu þar í landi á ári hverju, en nú smitast einungis um 12.000 manns á ári.