Asia Bibi farin úr landi

AFP

Asia Bibi, kristin kona sem sat á dauðadeild í pakistönsku fangelsi í átta ár, er farin frá Pakistan. Greint er frá þessu í þarlendum fjölmiðlum og vísað í nafnlausar heimildir innan úr utanríkisráðuneytinu sem og aðila sem eru nánir Asia Bibi.

Hæstiréttur Pakistans hnekkti í nóvember dauðadómi yfir Asiu Bibi en hún hafði verið dæmd fyrir guðlast og óvirðingu við Múhameð spámann.

Undirréttur dæmdi hana til dauða árið 2010 eftir að múslimskar konur sökuðu hana um að hafa talað af óvirðingu um Múhameð spámann þegar þær kröfðust þess að hún snerist til íslamskrar trúar í orðasennu. Hún hefur alltaf neitað sakargiftunum.

Ekki hefur verið greint frá því hvert hún fer en talið er að dætur hafi þegar flúið til Kanada. 

Vildi bjóða henni hæli á Íslandi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, skrifaði grein í Morgunblaðið í nóvember þar sem hann hvatti ríkisstjórn Íslands til þess að bjóða Asiu Bibi og fjölskyldu hennar hæli á Íslandi.

„Á Íslandi, eins og í flestum öðrum ríkjum, starfar sérhæft fólk að því að greina umsóknir flóttamanna um hæli í samræmi við reglur og samninga sem hafa verið gerðir um móttöku flóttamanna.

Þeir sem starfa við slíkt geta ekki rætt einstaka mál opinberlega. Það fer því ekki vel á því þegar stjórnmálamenn eða fjölmiðlar beita sér fyrir því að mál tiltekinna einstaklinga séu tekin fram yfir önnur.

Það væri afleitt ef reglan yrði sú að þeir sem ná athygli fjölmiðla, og þar með stjórnmálamanna, nytu forgangs fram yfir aðra. Við þær aðstæður er auk þess hætt við að umfjöllunin verði einsleit og jafnvel villandi, enda hafa þeir sem sinna því erfiða verkefni að meta slík mál hvorki tök né rétt á að gera grein fyrir heildarmyndinni.

Einnig er mikilvægt að standa vörð um reglurnar til að draga úr tilhæfulausum umsóknum enda gerir slíkt ríkjum mun erfiðara að veita því fólki skjól sem þarf mest á því að halda.

Að öllu þessu sögðu bendi ég á að málið sem ég fjalla um hér á eftir er annars eðlis. Það er á margan hátt einstakt og eftir því sem ég best veit er það ekki til umfjöllunar í íslenska stjórnkerfinu

Einstakt mál

Mál Asiu Bibi hefur staðið í nærri áratug og er orðið að alþjóðlegu úrlausnarefni sem hefur leitt ýmislegt merkilegt í ljós.

Á Vesturlöndum hefur verið fylgst með málinu um margra ára skeið. En vandi Bibi er að hún er kristin og það skorar ekki hátt hjá stórum hlutum þess hóps sem stundum er kallaður „góða fólkið“ og gefur oft tóninn í opinberri umræðu.

Kristið fólk hefur í auknum mæli sætt ofsóknum víða um heim. Þegar ég heimsótti flóttamannabúðir í Líbanon, vegna stríðsins í Sýrlandi, fyrir fáeinum árum var sláandi að heyra af vanda kristinna flóttamanna. Við fengum að heyra að í mörgum flóttamannabúðum væru þeir ekki velkomnir og jafnvel hætta búin. Það bættist svo við að hópurinn mætti í sumum tilvikum afgangi hjá vestrænum ríkjum við móttöku flóttamanna. Ástæðan var sögð sú að þeir sem réðu för í mörgum þeirra landa óttuðust fordæmingu hinna „góðu“ ef þeir yrðu grunaðir um að huga sérstaklega að vanda kristinna flóttamanna,“ skrifaði formaður Miðflokksins í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert