Asia Bibi komin til Kanada

AFP

Asia Bibi er komin til Kanada að sögn lögmanns hennar en þar hafa tvær dætur hennar þegar fengið alþjóðlega vernd. Asia Bibi var dæmd til dauða af undirrétti í Pakistan árið 2010 fyrir guðlast og óvirðingu við Múhameð spámann. Hún var síðan sýknuð í hæstarétti í nóvember og hefur verið í felum síðan þá í heimalandinu. Pakistönsk yfirvöld hafa staðfest að hún sé farin úr landi en ekki hvert hún fór en lögmaður hennar, Saif ul Malook, staðfesti við BBC að hún hafi farið til Kanada. 

Mál Asia Bibi, sem er fimm barna móðir, nær aftur til júní 2009 er hún lenti í illdeilum við nágrannakonur sínar. Þær höfðu verið við ávaxtatínslu og snerist rifrildið um bolla af vatni sem konurnar töldu að væri óhreinn þar sem Bibi, sem er kristin, hafði notað hann. Saksóknarar sögðu að í deilum þeirra hafi Bibi sýnt Múhameð vanvirðingu þegar nágrannakonurnar sögðu henni að snúast til íslam. 

Asia Bibi varð fyrir ofbeldi af hálfu nágranna í kjölfarið en þeir segja að hún hafi þá játað guðlast. Eftir lögreglurannsókn var hún handtekin. 

Þegar hæstiréttur sýknaði hana kom fram í dómsorðinu að málið byggði á óáreiðanlegum sönnunum og játning hennar hafi verið þvinguð fram með hótunum um líflát.

Frétt mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert