Börn sænskra vígamanna á heimleið

Frá Idlib.
Frá Idlib. AFP

Sjö börn skandínavískra hjóna sem gengu til liðs við vígasamtökin Ríki íslams eru farin frá Sýrlandi til Íraks og er afi þeirra hjá þeim. Börnin, sem eru á aldrinum eins til átta ára, verða flutt til Svíþjóðar en foreldrar þeirra létust bæði í árásum á búðir vígasamtakanna.

Fjallað er um afdrif þeirra í norskum og sænskum fjölmiðlum. Faðir þeirra, Michael Skråmo, var norskur ríkisborgari en fæddur og uppalinn í Gautaborg. Hann var drepinn í lokaárásunum á búðir Ríkis íslams í Idlib í mars. Eiginkona hans, Amanda Galves, var sænsk en hún var drepin í janúar. 

Af barnanna, Patricio Galvez, hitti þau á sjúkrahúsi í Erbil í Írak í gærkvöldi en kúrdísk yfirvöld heimiluðu flutning barnanna frá Sýrlandi til Írak fyrir einhverjum vikum síðan. Svíar eru með ræðismannsskrifstofu í Erbil. Utanríkisráðuneyti Svíþjóðar kom að samningum um að veita heimild fyrir flutningi þeirra frá Sýrlandi en þau voru í flóttamannabúðum í al-Hol. 

Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins er talið að um 40 börn af norskum uppruna séu í Sýrlandi í dag. Af þeim er vitað um 18 þeirra og að 12 eru munaðarlaus.

Skråmo og Galves fóru til Sýrlands árið 2014 og voru fjögur börn þeirra með í för. Síðan þá hafa þau eignast þrjú börn. Sænska ríkissjónvarpið ræddi við afa barnanna í morgun og lét hann vel af börnunum. Þau hafi að vísu verið óvær í nótt sem ekki sé skrýtið því hann hafi fært þeim mikið af gjöfum í gærkvöldi. Nú taki við bið eftir heimild til þess að fara með börnin heim til Svíþjóðar. 

Frétt NRK

Annie Lööf, formaður Miðflokksins í Svíþjóð, segir að sænsk yfirvöld verði að taka ábyrgð á sænskum börnum í flóttamannabúðum í Sýrlandi. Tryggja þurfi hag barnanna sem ekki beri ábyrgð á gjörðum foreldra sinna. Aftur á móti eigi að refsa foreldrunum sem eru á lífi. 

Ebba Busch Thor, formaður Kristi­legra demó­krata, segist vilja sjá svipaða lausn fyrir önnur sænsk börn sem enn eru í Sýrlandi líkt og börnin sjö sem nú eru komin til Íraks. Vernda þurfi börn á sama tíma og barist sé gegn öfgavæðingu. Þeir sem hafi framið glæpi þurfi að gjalda fyrir það. 

Formaður Svíþjóðardemókrata, Jimmie Åkesson, tekur undir þetta að hluta. Ef börnin eigi ættingja í Svíþjóð sem geti annast velferð þeirra þá sé ábyrgðin hjá Svíum. En ef þeir eru ekki til staðar geti verið betra fyrir börnin að umönnun þeirra sé í höndum ættingja í Sýrlandi.

Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert