Sjö börn skandínavískra hjóna sem gengu til liðs við vígasamtökin Ríki íslams eru farin frá Sýrlandi til Íraks og er afi þeirra hjá þeim. Börnin, sem eru á aldrinum eins til átta ára, verða flutt til Svíþjóðar en foreldrar þeirra létust bæði í árásum á búðir vígasamtakanna.
Fjallað er um afdrif þeirra í norskum og sænskum fjölmiðlum. Faðir þeirra, Michael Skråmo, var norskur ríkisborgari en fæddur og uppalinn í Gautaborg. Hann var drepinn í lokaárásunum á búðir Ríkis íslams í Idlib í mars. Eiginkona hans, Amanda Galves, var sænsk en hún var drepin í janúar.
Af barnanna, Patricio Galvez, hitti þau á sjúkrahúsi í Erbil í Írak í gærkvöldi en kúrdísk yfirvöld heimiluðu flutning barnanna frá Sýrlandi til Írak fyrir einhverjum vikum síðan. Svíar eru með ræðismannsskrifstofu í Erbil. Utanríkisráðuneyti Svíþjóðar kom að samningum um að veita heimild fyrir flutningi þeirra frá Sýrlandi en þau voru í flóttamannabúðum í al-Hol.
Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins er talið að um 40 börn af norskum uppruna séu í Sýrlandi í dag. Af þeim er vitað um 18 þeirra og að 12 eru munaðarlaus.
Skråmo og Galves fóru til Sýrlands árið 2014 og voru fjögur börn þeirra með í för. Síðan þá hafa þau eignast þrjú börn. Sænska ríkissjónvarpið ræddi við afa barnanna í morgun og lét hann vel af börnunum. Þau hafi að vísu verið óvær í nótt sem ekki sé skrýtið því hann hafi fært þeim mikið af gjöfum í gærkvöldi. Nú taki við bið eftir heimild til þess að fara með börnin heim til Svíþjóðar.
Annie Lööf, formaður Miðflokksins í Svíþjóð, segir að sænsk yfirvöld verði að taka ábyrgð á sænskum börnum í flóttamannabúðum í Sýrlandi. Tryggja þurfi hag barnanna sem ekki beri ábyrgð á gjörðum foreldra sinna. Aftur á móti eigi að refsa foreldrunum sem eru á lífi.
Ebba Busch Thor, formaður Kristilegra demókrata, segist vilja sjá svipaða lausn fyrir önnur sænsk börn sem enn eru í Sýrlandi líkt og börnin sjö sem nú eru komin til Íraks. Vernda þurfi börn á sama tíma og barist sé gegn öfgavæðingu. Þeir sem hafi framið glæpi þurfi að gjalda fyrir það.
Formaður Svíþjóðardemókrata, Jimmie Åkesson, tekur undir þetta að hluta. Ef börnin eigi ættingja í Svíþjóð sem geti annast velferð þeirra þá sé ábyrgðin hjá Svíum. En ef þeir eru ekki til staðar geti verið betra fyrir börnin að umönnun þeirra sé í höndum ættingja í Sýrlandi.