Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, hætti í dag við að sækja Grænland heim og vísaði til annríkis í Washington þegar tilkynnt var um að ekkert yrði af heimsókninni. Þetta er önnur heimsóknin sem hann aflýsir í vikunni en fyrir tveimur dögum hætti hann við heimsókn til Þýskalands.
Klerkastjórnin í Íran kvaðst í gær ætla að hætta að virða sum ákvæði kjarnorkusamnings landsins við Bandaríkin og fimm önnur lönd frá árinu 2015 þar til Evrópulönd fyndu leið til að sneiða hjá viðskiptabanni Bandaríkjastjórnar á Íran. Klerkastjórnin hótaði einnig að hefja auðgun úrans, sem hægt væri að nota í kjarnavopn, ef viðsemjendurnir virtu ekki ákvæði samningsins um að aflétta refsiaðgerðum gegn landinu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ákvað fyrir ári að draga landið út úr kjarnorkusamningnum og setti viðskiptabann sem varð til þess að olíuútflutningur Írans snarminnkaði. Með samningnum við Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína, Rússland og Þýskaland skuldbatt klerkastjórnin í Íran sig til að takmarka verulega kjarnorkuáform sín gegn því að viðskiptaþvingunum gegn landinu yrði aflétt. Stjórnvöld í Bretlandi, Frakklandi, Kína, Rússlandi og Þýskalandi sögðust ætla að standa við samninginn og töldu að Íranar hefðu staðið að fullu við skilmála hans.
Hassan Rouhani, forseti Írans, sagði í gær að landið myndi ekki selja umframbirgðir sínar af lítt auðguðu úrani og þungavatni ef þær færu yfir þau mörk sem kveðið væri á um í samningnum. Forsetinn gaf síðan Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi tveggja mánaða frest til að finna leið til að sneiða hjá viðskiptabanni Bandaríkjastjórnar. Hann hótaði því að Íranar hæfu auðgun úrans umfram þau mörk, sem sett voru í samningnum, og hæfu að nýju framkvæmdir við þungavatnskjarnakljúf í Arak í samræmi við kjarnorkuáætlun sem klerkastjórnin hafði ákveðið áður en samningurinn náðist. Samningurinn kvað á um að Íranar breyttu kjarnakljúfnum í Arak til að koma í veg fyrir framleiðslu plútons sem hægt væri að nota í kjarnavopn.
Pompeo átti að koma til Nuuk í dag og heimsækja bandaríska hermenn, New York Air National Guard, sem vinna við loftslagsrannsóknir á Grænlandi.
Talskona utanríkisráðuneytisins, Morgan Ortagus, segir að Pompeo muni heimsækja Grænland síðar en utanríkisráðherra Danmerkur, Anders Samuelsen, ætlaði að hitta Pompeo í Nuuk í dag.