Ræða þátttöku Kína í þróun norðurslóða

Frá ráðstefnu Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle um þátttöku Kína …
Frá ráðstefnu Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle um þátttöku Kína í framtíðarþróun norðurslóða, 10. maí 2019 í Shanghaí. Ljósmynd/Aðsend

Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Arctic Circle, flutti opnunarræðu á ráðstefnu Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle um þátttöku Kína í framtíðarþróun norðurslóða sem hófst í morgun í Shanghaí. 

Ráðstefnuna sækja rúmlega 500 fulltrúar frá um 30 löndum: stjórnmálaleiðtogar, embættismenn, vísindamenn, sérfræðingar, fulltrúar umhverfissamtaka og fjölmargir aðrir. Ráðstefnan er haldin í Vísinda- og tæknisafni Shanghaí. 

Meðal helstu umræðuefna er hin umfangsmikla fjárfestingaáætlun kínverskra stjórnvalda „Belti og braut“ og í því samhengi hinn svokallaði Silkivegur heimskautsins. Einnig eru viðamiklar málstofur um vísindi og frumkvöðlastarf, samgöngur og fjárfestingar, sem og um orkumál, málefni hafsins og alþjóðlega samvinnu á norðurslóðum. Sérstök áhersla er á jarðhitaverkefni í kínverskum borgum þar sem íslenskir aðilar hafa unnið veigamikið starf. Einnig er fjallað um áform Íslands á vettvangi norðurskautsráðsins, en Ísland hefur nú formlega tekið við sem formennskuríki ráðsins. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Á meðal ræðumanna eru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður í Bandaríkjunum og formaður orkunefndar öldungadeildarinnar, Scott Minerd, fjárfestingastjóri bandaríska fjárfestingasjóðsins Guggenheim, og hinn heimsfrægi arkítekt og frumkvöðull William McDonough sem nýlega var valinn af Fortune-tímaritinu sem einn af 50 helstu leiðtogum heims. 

Frá ráðstefnunni.
Frá ráðstefnunni. Ljósmynd/Aðsend
Vísinda- og tæknisafn Shanghaí í Kína.
Vísinda- og tæknisafn Shanghaí í Kína. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka