Embættismenn í Hvíta húsinu báðu að minnsta kosti tvisvar í síðasta mánuði Donald F. McGahn II, lykilvitni í skýrslu Mueller vegna meintra afskipta Rússa af bandarísku forsetakosningunum, um að segja opinberlega að hann hafi aldrei talið að forsetinn hefði hindrað framgang réttvísinnar.
New York Times greinir frá þessu.
McGahn, sem var fyrsti ráðgjafi forsetans í Hvíta húsinu, hafnaði beiðninni. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, reiddist mjög yfir yfir þessu og taldi að McGahn hefði ekki sýnt sér hollustu með því að segja rannsakendum sem unnu að skýrslunni frá tilraunum forsetans til að hafa stjórn á rannsókninni vegna hinna meintu afskipta Rússa.
Lögmaður McGahn, William A. Burck, fékk aðra af þessum tveimur beiðnum frá Hvíta húsinu áður en skýrsla Muellers var gerð opinber en eftir að bandaríska dómsmálaráðuneytið lét lögmenn Trump fá það til yfirlestrar.
Þegar þeir lásu skýrsluna sáu þeir að Mueller lét ekki fylgja með í henni að McGahn hefði sagt rannsakendum að hann teldi að Trump hefði aldrei hindrað framgang réttvísinnar. Bruck hafði sagt þeim einhverjum mánuðum fyrr að McGahn væri á þessari skoðun.
McGahn ætlaði fyrst að verða við beiðni Hvíta hússins. Eftir að skýrslan kom út þar sem víða kemur fram hvernig Trump reyndi að hafa áhrif á rannsóknina, hætti hann við að gefa út yfirlýsinguna.