Mueller mun ekki bera vitni í næstu viku

Robert Mueller.
Robert Mueller. AFP

Robert Mueller, sérstakur saksóknari sem annaðist rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016, mun ekki svara spurningum þingnefndar í næstu viku. Þetta segir hátt settur embættismaður demókrata.

Jerry Nadler, formaður dómsmálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, vildi fá Mueller til að bera vitni 15. maí. Hann segir hins vegar að enn sé óútkljáð hvenær Muellert muni mæta fyrir nefndina. 

„Það verður ekki í næstu viku,“ sagði Nadler við blaðamenn.

„En við eigum í viðræðum við hann, erum að tala við hann og dómsmálaráðuneytið.“

Nadler segir að nefndin muni stefna Mueller til að mæta fyrir nefndina gerist þörf á því, en hann vonar að það verði ekki raunin. 

Nefndin, sem hefur það vald að kæra forsetann fyrir embættisbrot, greiddi nýverið eftir flokkslínum þess efnis að William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, yrði kærður fyrir að vanvirða þingið, eftir að hann neitaði að láta af hendi óritskoðaða útgáfu af Mueller-skýrslunni.

Mueller hefur sagt að Barr, sem kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar í lok mars, hefði ekki farið rétt með varðandi efni skýrslunnar sem hefði leitt til þess að almenningur hefði ekki rétta mynd af niðurstöðum rannsóknarinnar.

Sú deila, og að Barr hafi neitað að afhenda skýrslu Muellers óritskoðaða, hefur leitt til þess að þingmenn vilja fá Muller sjálfan til að sitja fyrir svörum nefndarinnar. Barr hefur lýst því yfir, að hann geri ekki neinar athugasemdir við það. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sem demókratar saka um að hafa átt í samkrulli með stjórnvöldum í Moskvu, hefur verið tvístígandi varðandi mögulegan vitnisburð Muellers. 

Hann hefur sagt að hann myndi ekki hreyfa neinum mótbárum við því. En á sunnudag birti hann færslu á Twitter þar sem hann sagði einfaldlega: „Bob Mueller á ekki að bera vitni.“

Það kvað svo aftur við annan tón á fimmtudag þegar hann sagði: „Ég mun setja þetta í hendur dómsmálaráðherrans, sem er mjög hæfur, og hann mun taka þessa ákvörðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert