„Hvað hafa þessi börn gert af sér?“ spyr Fabrizio Carboni, starfsmaður Rauða krossins, eftir heimsókn í al Hol-búðirnar í Sýrlandi. Hann svarar sjálfur spurningunni: „Ekkert.“ Þúsundir barna erlendra vígamanna eru í flóttamannabúðum í Sýrlandi og enginn veit hvað verður um þau.
Mörg þeirra voru ekki komin á skólaaldur þegar foreldrar þeirra fóru með þau til Sýrlands og Íraks til þess að taka þátt í stofnun kalífadæmis Ríkis íslams. Þúsundir þeirra eru fædd í ríkjunum tveimur og hafa aldrei komið til landsins sem þau ættu að kalla heima. Sennilega eru engir þeirra sem bjuggu í búðum vígasamtakanna í jafn viðkvæmri stöðu.
Samkvæmt New York Times og Telegraph er um að ræða yfir 40 þúsund erlenda vígamenn og fjölskyldur sem koma frá 80 löndum. Mörgum þeirra er haldið í fangabúðum og fangelsum í austurhluta Sýrlands, Írak og Líbýu.
Rannsakendur segja að einhver barnanna hafi verið þjálfuð hjá Ríki íslams sem njósnarar, kokkar, hermenn og til að koma fyrir sprengjum. Eins hafi einhver þeirra verið send út í opinn dauðann sem vígamenn og til að fremja sjálfsvígsárásir. Í áróðursmyndskeiðum Ríkis íslams má sjá ung börn afhöfða og skjóta fanga. Sum voru í þjálfun hjá samtökunum í mörg ár. Eða eins og segir í ítarlegri umfjöllun New York Times nýverið: Er barn hjá Ríki íslams aðeins barn? Eða er það tifandi tímasprengja?
„Þau eru fórnarlömb stöðu sinnar vegna þar sem þau voru þar gegn eigin vilja,“ segir Peter Neumann, sérfræðingur í öfgavæðingu og framkvæmastjóri International Center for the Study of Radicalization við King’s College í London. „En það þýðir samt ekki að þeim fylgi ekki áhætta, í einhverjum tilvikum að minnsta kosti.“
Í Sýrlandi eru um 12 þúsund erlendar konur og börn í haldi en inni í þeirri tölu eru ekki yfir 30 þúsund konur og börn sem eru í haldi í Írak. Flest með íraskt ríkisfang.
Afi og amma tveggja barna sem eru ásamt franskri móður sinni í fangabúðum í Sýrlandi hafa höfðað mál gegn franska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Lögmenn þeirra segja að franska ríkið hafi synjað börnunum um að koma til Frakklands. Um er að ræða fjögurra ára gamlan dreng og þriggja ára gamla stúlku sem bæði eru fædd í Sýrlandi en þau eru meðal 500 barna franskra ríkisborgara sem gengu til liðs við Ríki íslams áður en síðasta vígi samtakanna var hertekið í mars.
Frönsk yfirvöld segja að þau muni taka mál hvers einstaklings fyrir sig. Síðan í mars hafa aðeins fimm munaðarlaus börn og þriggja ára gömul stúlka, en móðir hennar var dæmd í lífstíðarfangelsi í Írak, verið send heim til föðurlandsins. Það er Frakklands.
Mannúðarsamtök hafa bent á að þessi stefna afhjúpi afstöðu margra í garð saklausra fórnarlamba stríðsins en mörg þeirra glíma við alvarlega áfallastreituröskun eftir bardaga og sprengjuregn undanfarin misseri samfara því að búa við ómannúðlegar aðstæður. Þau eiga á hættu að ná sér aldrei andlega.
Lögmenn afans og ömmunnar segja í samtali við AFP-fréttastofuna að með því að neita móður og tveimur veikum börnum hennar um að snúa aftur til föðurlandsins sé franska ríkið að brjóta á mannréttindum þeirra og því hafi verið ákveðið að fara með málið fyrir Mannréttindadómstólinn í Strassborg.
Í málsókninni er franska ríkið einnig sakað um að brjóta á rétti fjölskyldu til að koma inn í land þar sem hún hefur ríkisfang en þetta er í fyrsta skipti sem slíkt atriði er tekið upp í máli barna vígamanna.
Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur móður barnanna en börnin særðust í bardaganum um þorpið Baghouz, síðasta vígi Ríkis íslams sem féll undir lok mars og lýstu Lýðræðissveitir Sýrlands, sem njóta forystu Kúrda og stuðnings Bandaríkjanna, yfir endalokum hins svokallaða kalífadæmis Ríkis íslams í þorpinu.
Þau eru í al Hol-búðunum ásamt 73 þúsundum til viðbótar, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. Þar af eru 12 þúsund útlendingar í búðunum. Lögmenn afans og ömmunnar segja að í búðunum geisi sjúkdómar eins og kólera, berklar og blóðkreppusótt. Börnin tvö séu vannærð og móðir er með taugaveiki. Móðirin þrái að börnin fái að fara til Frakklands og hún sé reiðubúin til þess að fara fyrir dóm þar.
Frönsk stjórnvöld eru ekki mjög spennt fyrir því að taka við mörgum vígamönnum eða fjölskyldum þeirra, ekki síst vegna hryðjuverkaárása sem vígamenn hafa framið í landinu undanfarin ár. Vígamenn sem hafa oft öfgavæðst í fangelsum landsins eftir að hafa verið í návígi við fólk sem hefur dvalið undir handleiðslu Ríkis íslams eða al-Qaeda í Mið-Austurlöndum.
Í síðasta mánuði hafnaði stjórnlagaráð Frakklands, sem úrskurðar um lögmæti stefnumörkunar og laga, nokkrum beiðnum um endurkomu Frakka til landsins. Var það niðurstaða ráðsins að um utanríkismál væri að ræða sem sé utan lögsögu ráðsins.
François Hollande, fyrrverandi forseti Frakklands, hefur samþykkt að hitta ættingja barna í búðunum í næstu viku. Segja lögmennirnir Marie Dosé og Henri Leclerc að ættingjarnir vonist til þess að Hollande sé reiðubúinn til að hlusta á sögur þeirra og hafi skilning á að börn eigi ekki að gjalda fyrir gjörðir foreldra sinna.
Endurkoma fólks sem fór að berjast með vígasamtökum í Sýrlandi og Írak er gríðarlega eldfimt umræðuefni í vestrænum ríkum. Bæði Bretar og Bandaríkjamenn hafa svipt einhverja þeirra ríkisborgararétti en þessi harða stefna vakti hörð viðbrögð um miðjan mars þegar 19 ára gömul bresk kona, Shamima Begum, missti ríkisfang sitt í Bretlandi eftir að hafa grátbeðið um að fá að snúa aftur heim. Þrátt fyrir að vilja snúa aftur heim sýndi hún litla iðrun varðandi fortíð sína í búðum Ríkis íslams í viðtölum. Sonur hennar, Jarrah, lést úr lungnabólgu innan þriggja vikna frá fæðingu.
En það er ekki bara spurning um að taka við börnum vígamanna sem brennur á vörum vestrænna leiðtoga heldur einnig hvernig eigi að vinna á sárum sem eru á sálum þeirra eftir að hafa búið á átakasvæðum um árabil.
Mörg þeirra bera merki áfallastreituröskunar. Til að mynda geta þau átt erfitt með að sýna öðrum samkennd, glíma við martraðir og einhver þeirra hætta að tala. „Þessi börn þekkja hungur og kulda af eigin raun. Sum þeirra hafa þegar verið skilin frá foreldrum sínum, stundum til að forða þeim frá átökum og þau eru hrædd um að verða yfirgefin að nýju,“ segir Marie-Rose Moro, sem er læknir og hefur annast börn sem koma af átakasvæðum.
Umræðan hefur sjaldan verið háværari en nú hvað varðar börn og konur vígamanna. Yfirfullar búðir í austurhluta Sýrlands þangað sem eiginkonur og börn vígamanna Ríkis íslams hafa flúið aðstæður sem erfitt er að ímynda sér á sama tíma og þau óttast árásir af hálfu þeirra sem hafa orðið fórnarlömb vígasveita í Sýrlandi.
Hinum megin við landamærin hafa írösk yfirvöld dæmt hundruð til dauða og þúsundir í lífstíðarfangelsi. Oft taka réttarhöldin ekki lengri tíma en fimm mínútur. Þrátt fyrir harmakvein ættingja þeirra útlendinga sem fóru til Sýrlands og Íraks á sínum tíma til að vinna að uppbyggingu kalífadæmis þá hafa stjórnvöld í þeirra ríkjum lítinn áhuga á að taka við þeim aftur. Ekkert frekar en sýrlensk og írösk yfirvöld hafa áhuga á að sitja uppi með þau á sama tíma og öll fangelsi og fangabúðir eru yfirfull.
Eða eins og ýmsir segja - hver vill vera sá stjórnmálamaður sem samþykkir endurkomu manneskju sem hefur starfað með vígasamtökum? Tveimur árum síðar fremur kannski sama manneskja sjálfsvígsárás í heimalandinu og tekur með sér fjölda annarra. Hvernig á að réttlæta það fyrir þjóð sinni?
Því þrátt fyrir að fáir öfgamenn sem snúa aftur heim fremji hryðjuverk í heimalandinu eru dæmin til staðar. Til að mynda árásirnar á París í nóvember 2015 sem kostuðu 130 manns lífið. Tvær hryðjuverkaárásir í Túnis og nýjasta dæmið á Sri Lanka á páskadag. Þar er vitað að einn árásarmannanna hið minnsta var í þjálfunarbúðum Ríkis íslams í Sýrlandi áður en hann ásamt félögum sínum lét til skarar skríða í kirkjum og hótelum. Í árásum sem kostuðu hundruð mannslífa.
Hvernig á að vera hægt að velja og hafna? Hverjir eru hættulegir umhverfi sínu og hverjir eru glæpamenn? Þetta eru spurningar sem stjórnvöld standa frammi fyrir á sama tíma og tugþúsundir kvenna og barna tengd Ríki íslams bíða á milli vonar og ótta um framtíð sína.
Þrátt fyrir að ekki sé vitað til þess að Íslendingar hafi barist með Ríki íslams er vitað um nokkur hundruð Skandinava sem það hafa gert. Nýverið var fjallað um sjö börn sænskrar konu og norsks manns sem væntanlega fá að koma til Svíþjóðar með móðurafa sínum en hann fór til Íraks að hitta börnin eftir að foreldrar þeirra létust í átökum í Sýrlandi. Börnin eru á aldrinum eins og upp í átta ára og eru þrjú þeirra fædd í Sýrlandi. Svo virðist sem það sé pólitísk samstaða í Svíþjóð um að láta börnin ekki gjalda fyrir gjörðir foreldra sinna.
Mjög algengt er að fólk hafi litið á það sem svo að konur eða stúlkur sem fóru frá heimalandinu til þess að taka þátt í starfi Ríkis íslams í Sýrlandi eða Írak hafi verið viljalaus verkfæri sem hafi verið tældar til þess að verða brúðir vígamanna. En oftar og oftar er að koma í ljós að þær hafi tekið þátt í vopnuðum átökum.
Þær eru sagðar heilaþvegnar í fréttum fjölmiðla og af stjórnmálamönnum, þær hafi verið blekktar, þær séu ástsjúkar og hreinlega viti ekkert hvað þær eru að gera. Þetta er orðræðan gagnvart vestrænum konum sem hafa farið til Sýrlands og Íraks á undanförnum árum, að sögn Meredith Loken, aðstoðarprófessors við University of Massachusetts at Amherst, en rannsóknir hennar hafa meðal annars beinst að konum sem hafa gengið til liðs við öfgahópa.
„En jafnvel þó að þær taki ekki upp vopn eru margar þeirra virkar í starfi hópanna,“ segir hún. Í einhverjum tilvikum eru þær viljalaus verkfæri í höndum vígamannanna og aðrar taka fullan þátt í ofbeldisverkum. Sumar eru bæði þolendur og gerendur.
Konur eins og Shamima Begum og Hoda Muthana hafa ítrekað ratað í fréttir undanfarnar vikur, ekki síst vegna þess að það er erfitt að segja til um hlutverk þeirra innan Ríkis íslams og hættuna sem af þeim stafar.
Hoda Muthana gekk til liðs við Ríki íslams er hún var 19 ára, en dvelur nú í fangabúðum í Sýrlandi. Henni verður ekki leyft að snúa aftur til Bandaríkjanna að sögn Donalds Trump Bandaríkjaforseta en hann kveðst ætla að banna Muthana að koma til landsins.
Hún segist iðrast þess verulega að hafa farið til Sýrlands til að ganga til liðs við vígasamtökin og hefur biðlað til yfirvalda um að hún fái að snúa aftur til fjölskyldu sinnar í Alabama.
Muthana á að hafa verið einn af helstu áróðursmönnum Ríkis íslams á netinu og hún hafi m.a. hvatt til þess að blóði Bandaríkjamanna væri úthelt. Hún segist nú hafa gert reginmistök þegar hún fór frá Bandaríkjunum fyrir fjórum árum og hún hafi verið heilaþvegin á netinu.
„Mig skortir orð til að lýsa því hversu mjög ég sé eftir þessu,“ segir Kimberly Gwen Polman, 46 ára kona sem er með tvöfalt ríkisfang: bandarískt og kanadískt. Hún gekk til liðs við Ríki íslams árið 2015. Nú er hún ein þeirra þúsunda kvenna sem dvelja í al Hol-búðunum.
Á sama tíma og bandarísk yfirvöld krefja erlendar ríkisstjórnir um að taka við þegnum sínum þá hafa þau ekki viljað taka við eigin þegnum. Hefur jafnvel verið ýjað að því að senda þá sem ekki verður tekið á móti í fangabúðirnar við Guantánamo-flóa.
„Þeir eru ykkar þegnar hvort sem ykkur líkar betur eða verr og þið berið ábyrgð á vandanum sem þeir hafa skapað,“ segir Tanya Mehra, rannsakandi við hryðjuverkavarnamiðstöðina í Haag, í samtali við New York Times.
Á meðan það gerist ekki eru sífellt fleiri útlendingar dæmdir fyrir hryðjuverk í Írak. Um síðustu áramót höfðu tæplega 200 útlend börn verðið dæmd í fangelsi í Írak fyrir aðild að hryðjuverkum.
Mehra segir að lítið sé áunnið með því að fresta ákvörðunartöku því vandinn hverfi ekki. Með því að taka við þeim sé að minnsta kosti hægt að fylgjast með þeim og lágmarka hættuna sem þeim getur fylgt.
Nokkur ríki hafa lagt til að alþjóðlegum glæpadómstól verði komið á laggirnar fyrir vígamenn Ríkis íslams líkt og gert hefur verið varðandi ríki fyrrverandi Júgóslavíu, Rúanda og fleiri lönd þar sem borgarastyrjaldir hafa geisað því saksókn heima fyrir getur verið flókin. Þetta er einfaldlega vandamál sem mörg ríki hafa aldrei áður staðið frammi fyrir. Ekki séu til lög sem taki á þessum hópi í viðkomandi löndum og ef þau eru til þá séu refsiákvæðin of væg að mati margra.
Eins hvernig eigi að halda þeim frá öðrum föngum til að koma í veg fyrir að þeir hafi áhrif á aðra fanga með öfgaskoðunum sínum. Fanga sem kannski eru á leið út í samfélagið að nýju. Meiri samkennd er með börnum heldur en foreldrum þeirra en þrátt fyrir það hafa fá ríki sent fólk til Sýrlands og Íraks til þess að leita þessi börn uppi. Jafnframt hefur þess verið krafist að þau fari í lífsýnarannsókn áður en heim er haldið til að tryggja að þau séu með sanni börn foreldra sinna og þar af leiðandi ríkisborgarar þeirra landa sem foreldrarnir koma frá.
Í síðasta mánuði sóttu yfirvöld í Kosovo 110 þegna sína til Sýrlands, 32 konur og 74 börn. Eins hafa rússneskumælandi ríki sótt tugi barna til Sýrlands.
Einhver ríki hafa lagt til að börn verði skilin frá öfgavæddum foreldum og þeim komið fyrir hjá ættingjum eða komið í fóstur. Þetta þýðir að börnin komast frá Sýrlandi og Írak en um leið er ekki vitað hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir börn og foreldra sem eru aðskilin.
Hver dagur sem þau dvelja í fangabúðum er dagur án skóla og grundvallarréttinda. Þessi börn völdu ekki hvar þau fæddust né heldur völdu þau sér foreldra, segir Khawla Ben Aicha, þingmaður í Túnis, en Túnisbúar voru fjölmennir í hópi Ríkis íslams.
Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skulu öll börn njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.
Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.
Auk AFP og fleiri miðla