Sameinast í málsókn gegn lyfjafyrirtækjum

Málshöfðunin nær alls til 20 fyrirtækja og eru þau sökuð …
Málshöfðunin nær alls til 20 fyrirtækja og eru þau sökuð um að hafa átt þátt í verðsamráði sem nær til yfir 100 lyfja, meðal annars krabbameinslyfja og lyfja gegn sykursýki. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Rúmlega 40 ríki Bandaríkjanna hafa sameinast í málsókn gegn lyfjafyrirtækjum. Saka ríkin fyrirtækin um að hafa með sér verðsamráð um algeng lyf.

Teva Pharmaceuticals, stærsti framleiðandi samheitalyfja í heiminum, er meðal fyrirtækja sem eru kærð, en lyfjarisinn neitar allri sök. Teva er eina fyrirtækið sem hefur tjáð sig af þeim fyrirtækjum sem eru kærð. Auk fyrirtækjanna eru 15 manns kærðir fyrir að bera ábyrgð á að hafa haft umsjón með verðsamráðinu.

Málshöfðunin nær alls til 20 fyrirtækja og eru þau sökuð um að hafa átt þátt í verðsamráði sem nær til yfir 100 lyfja, meðal annars krabbameinslyfja og lyfja gegn sykursýki.

Fimm ára rannsóknarvinna liggur að baki kærunni. Lyfjafyrirtækin eru meðal annars sökuð um að hafa hækkað lyfjaverð um allt að 1.000% af kostnaðarverði í sumum tilfellum.

William Tong, ríkissaksóknari í Connecticut, lagði málið fyrir dómstól á föstudag. „Við erum með haldbær sönnunargögn sem sýnir umfangsmikil fjársvik lyfjafyrirtækja gagnvart almennum borgurum,“ segir Tong. Meðal sönnunargagna í málinu eru tölvupóstar, textaskilaboð, símaupptökur og viðtöl við fyrrverandi starfsmenn fyrirtækjanna.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert