„Við erum ekki á réttri leið“

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er staddur á Nýja-Sjálandi og …
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er staddur á Nýja-Sjálandi og er ferðalag hans hluti af undirbúningi fyrir leiðtogafund um loftslagsmál í New York í september. AFP

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir jarðarbúa ekki vera á réttri leið í baráttunni í loftslagsmálum. Guterres segir viðbrögð stjórnvalda um heim allan ekki vera nógu kraftmikil og að mestra áhrifa muni gæta hjá eyríkjum.

Guterres er staddur á Nýja-Sjálandi og er ferðalag hans hluti af undirbúningi fyrir leiðtogafund um loftslagsmál í New York í september. Hann mun einnig heimsækja eyjarnar Fiji, Vanúatú og Túvalú en hætta er talin að eyjarnar hverfi alfarið sökum hækkun sjávarmáls næstu áratugina vegna bráðnunar jökla.

„Hvert sem við lítum sjáum við skýr merki um að við erum ekki á réttri leið til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins,“ sagði Guterres á ráðstefnu í Auckland í dag.

Markmið Parísarsamkomulagsins, sem samþykkt var af sendinefndum 195 þjóða í desember 2015, er að vinda ofan af lofts­lags­breyt­ing­um sem or­sakað hafa hlýn­un jarðar. Sam­komu­lagið fel­ur m.a.í sér áætlan­ir um varn­ir gegn áhrif­un­um og stefnt er að því að hitastig á jörðinni hækki ekki um meira en 1,5 gráðu til ársins 2020.

Guterres segir það þverstæðukennt að hlutirnir væru að þróast í átt til hins verra og að aðgerðir stjórnvalda séu ekki nógu kröftugar, þó auðvitað mætti finna undantekningar á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert