Dómstóll í Kaliforníu hefur dæmt fyrirtækið Monsanto, sem er í eigu efna- og lyfjarisans Bayer, til að greiða um 250 milljarða króna í skaðabætur til pars sem höfðaði mál vegna illgresiseyðisins Roundup.
Parið fékk krabbamein og taldi illgresiseyðinn hafa valdið því.
Um er að ræða þriðja dómsmálið sem Monsanto tapar vegna Roundup. Fyrirtækið segir vöruna ekki vera krabbameinsvaldandi.
Lögmenn parsins sögðu upphæð skaðabótanna vera sögulega.
„Dómstóllinn sá skjöl frá fyrirtækinu sem sýndu að allt frá fyrsta degi hafði Monsanto engan áhuga á því að komast að því hvort Roundup sé öruggt,“ sagði Brent Wisner úr hópi lögmanna parsins.
Bayer sagðist í yfirlýsingu ætla að áfrýja niðurstöðunni.