Um 40 uighur-múslimakonur sem hurfu árið 2017 í aðgerðum kínverskra stjórnvalda gegn íslömskum öfgamönnum hafa nú verið látnar lausar. Konurnar voru allar giftar pakistönskum mönnum sem segja þær hafa þurft að greiða frelsi sitt dýru verði. Þær hafi þurft að sanna að þær gætu aðlagast kínversku samfélagi og fórna trúarinnrætingu sinni.
Konurnar, sem allar komu frá Xinjiang-héraðinu í Kína höfðu gifst kaupmönnum frá nágrannaríkinu Pakstina. Þær eru í hópi þeirra milljóna uighur-múslima sem taldir eru hafa verið í haldi í búðum sem kínversk yfir völd segja vera „endurmenntunarbúðir“.
Eiginmenn kvennanna segja þær hafa verið neyddar til að taka þátt í gjörðum sem íslamstrú bannar, bæði þegar þær dvöldu í búðunum og líka nú eftir að þær hafa verið látnar lausar.
„Hún sagði að þær hefðu þurft að borða svínakjöt og drekka áfengi og að hún verði að halda áfram að gera þetta,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir einum eiginmannanna sem nýlega heimsótti eiginkonu sína á heimili foreldra hennar í Xinjiang. Hann vildi ekki láta nafns síns getið.
„Henni var sagt að hún yrði að sannfæra yfirvöldum um að hún væri ekki enn róttæk í hugsun vilji hún ekki fara aftur [í búðirnar],“ útskýrði hann og bætti við að kona sín hefði hætt að ganga til bæna og Kóraninum hefði verið skipt út fyrir kínverskar bækur á heimili tengdaforeldra sinna.
Sumir kaupmannanna, sem skilja eiginkonur sínar eftir einar í Xinjiang vikum og jafnvel mánuðum saman á meðan þeir eru í viðskiptaferð telja konur sínar hafa verið fluttar í búðirnar vegna tengsla sinna við Pakistan, sem er múslimaríki.
Fólk sem dvalið hefur í búðunum hefur hins vegar greint frá því að það hafi verið flutt þangað fyrir það eitt að fylgja hefðum íslamstrúar, t.d. fyrir að vera með sítt skegg eða fyrir að bera blæju.
AFP segir þá vaxandi gagnrýni alþjóðasamfélagsins sem búðirnar hafa mætt hafa leitt til þess að Kína, sem nú reynir að bæta viðskiptasamband sitt við Pakistan, tók að sleppa konunum úr búðunum.
Faiz Ullah Faraq, talskona stjórnvalda í Gilgit-Baltistan héraðinu í Pakistan, sem á landamæri að Xinjiang, staðfesti að „meirihluti“ kvennanna hefði nú verið látinn laus.
AFP ræddi við eiginmenn níu kvennanna og þeir staðfestu að konur þeirra hefðu verið látnar lausar, en að þeim sé bannað að yfirgefa Xinjiang næstu þrjá mánuði og að vel sé fylgst með þeim á þeim tíma. Enginn þeirra vildi láta nafns síns getið af ótta við hefndaraðgerðir kínverskra yfirvalda.
„Þeir eru að fylgjast með hversu vel hún aðlagast kínversku samfélagi og ef þeir úrskurða hana óhæfa þá verður hún send til baka,“ sagði gimsteinakaupmaður um þær reglur sem gilda um þá sem eru látnir lausir.
Segja mennirnir gleðina við að hitta maka sinn á ný nú hafa fölnað, þar eiginkonurnar sem þeir hittu á ný hafi verið þeim sem ókunnugar.
„Eiginkona mín sagðist hafa verið neydd til að dansa og klæðast djörfum fatnaði, borða svínakjöt og drekka áfengi í búðunum,“ segir gimsteinakaupmaðurinn. Hann bætti við að hún beri nú með sér leiðbeiningabók með teikningum þar sem rauður kross sé settur við moskur, en hakað með grænu við kínverska fánann.
„Hún bað reglulega, en gerir það nú ekki lengur. Þá er hún byrjuð að drekka áfengi stundum og gerir það þá á veitingastöðum,“ segir hann og bætir við að hann telji þetta meðal þeirra hluta sem eftirlitsmenn vilji sjá konurnar gera.
James Leibold, sem er sérfræðingur í öryggismálum kínverskra yfirvalda við La Trobe háskólann í Ástralíu, segir aukið eftirlit lögregluyfirvalda í Xinjiang hafa „aukið trú“ yfirvalda á að þau geti fylgst náið með þeim sem látnir eru lausir úr búðunum.
Fjölskyldur marga kvennanna segja mikillar tortryggni líka gæta hjá þeim frá því að þær voru látnar lausar hafa og þær óttist að tilkynnt verði um þær. „Þögn hennar var það versta,“ segir einn kaupmaðurinn. „Hún grunar alla. Foreldra sína, fjölskyldu og jafnvel mig.“
Hvorki kínverska, né pakistanska utanríkisráðuneytið hafa viljað tjá sig um mál þeirra sem hafa verið látnir lausir. Maya Wang, sérfræðingur í málefni Kína hjá mannréttindasamtökunum Human Rights Watch, segir samtökin hafa heyrt sögur af fólki sem hafi þurft að sæta miklum hömlum og jafnvel stofufangelsi eftir að hafa verið sleppt úr búðunum.
„Að fólkinu sé sleppt kann þó að gefa til kynna að kínversk yfirvöld séu orðin viðkvæmari fyrir þrýstingi alþjóðasamfélagsins vegna alvarlegar mannréttindabrota í Xinjiang,“ segir Wang.
Í augum kaupmannanna eru eiginkonur þeirra hins vegar enn týndar.
„Konu minni, múslima sem iðkaði trú sína, hefur verið breytt á þann hátt sem ég hefði ekki getað ímyndað mér. Hún hefur hætt bænaiðkun, drekkur og borðar svínakjöt,“ segir einn þeirra. „Ég óttast að hjónaband okkar muni ekki endast lengi af því að hún er gjörólík manneskja núna, einhver sem ég þekki ekki.“