Samfélagsmiðlum lokað á Sri Lanka

AFP

Yfirvöld á Sri Lanka hafa lokað fyrir samfélagsmiðla eins og Facebook og WhatsApp eftir að ráðist var á múslima í mörgum bæjum á eyjunni um helgina. Árásirnar tengjast hryðjuverkum í kirkjum og á lúxushótelum á páskadag en vígamennirnir voru múslimar.

Hópar kristinna hafa meðal annars unnið skemmdarverk á verslunum sem eru í eigu múslima undanfarna daga og skemmdir unnar á moskum. Alls létust 258 í hryðjuverkaárásunum á páskadag.

Neyðarástand hefur ríkt frá árásunum og hafa sérsveitir lögreglu fengið auknar heimildir til þess að handtaka og halda fólki í varðhaldi án ákæru lengur en áður var heimilt.

Færslur múslima á samfélagsmiðlum hafa meðal annars orðið tilefni til árása á þá. Til að mynda skrifaði verslunareigandi á Facebook að það styttist í grát kristinna og túlkuðu ýmsir það sem hótun um frekari árásir. Ekki þurfti meira til þess að múgurinn fór að verslun mannsins, braut rúður og vann skemmdarverk á húsnæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka