Tvö lík til viðbótar í lásbogamáli

Tvö lík til viðbótar fundust á heimili annarrar hinna látnu.
Tvö lík til viðbótar fundust á heimili annarrar hinna látnu. AFP

Þýska lögreglan hefur fundið tvö lík til viðbótar í tengslum við rannsókn á dauða þriggja einstaklinga sem talið er að látist hafi af völdum lásboga. Lík tveggja kvenna og eins karlmanns fundust á hótelherbergi í Passau, skammt frá landamærunum við Austurríki.

Við leit á heimili annarrar kvennanna sem fundust látnar í Passau fundust lík tveggja kvenna til viðbótar, en það sem vekur sérstaka athygli er að 645 kílómetrar eru á milli staðanna tveggja því heimili konunnar er í Hannover, hinum megin í Þýskalandi.

Lögregla hefur ekki gefið út hvort lásbogi hafi komið að láti kvennanna tveggja í Hannover.

Hótelstarfsfólk í Passau kom að þremenningunum látnum á laugardagsmorgun, en á vettvangi fundust tveir lásbogar, auk þess sem sá þriðji fannst í tösku við rannsókn lögreglunnar á vettvangi.

Konurnar eru báðar á fertugsaldri en maðurinn á sextugsaldri, en þau komu öll frá mismunandi stöðum í Þýskalandi og höfðu bókað herbergi án morgunmats í þrjár nætur. Að sögn hótelstarfsfólks innrituðu þau sig án farangurs en sóttu töskurnar með lásbogunum eftir að móttökunni hafði verið lokað fyrir nóttina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert