Aðstandendur Gísla Þórs Þórarinssonar höfðu gefið lögreglu ábendingu um að Gunnar hálfbróðir hans hefði mögulega aðgang að skotvopni áður en til harmleiksins í Mehamn kom. Þetta hafa mbl.is og norski vefmiðillinn iFinnmark fengið staðfest, en lögregla hefur áður neitað að hafa vitað af skotvopni sem Gunnar hefði aðgang að.
iFinnmark vitnar auk þess í texta er Marius Nilsen, sem tengdur er aðstandendum Gísla Þórs, sendi fjölmiðlinum og aðstandendurnir hafa leyft að verði birtur:
„Lögreglan heldur því fram að henni hafi ekki verið kunnugt um að drápsmaðurinn í Mehamn hafi haft aðgang að skotvopni, en þetta hlýtur að vera á misskilningi byggt. Lögregla fékk upplýsingar hvort tveggja frá kærustu fórnarlambsins og því sjálfu. Að hún hafi ekki gripið inn í fyrr er hreint hneyksli [rett og slett en skandale],“ skrifar Nilsen.
„Mér finnst þetta óhugnanlegt,“ segir Nilsen enn fremur í samtali við iFinnmark, „fyrst er sú staða uppi að viðkomandi kýs að beita ofbeldi og hótunum og í næstu andrá er hann kominn með aðgang að vopni,“ segir hann.
Grunaði í málinu, Gunnar Jóhann, hafði áður sætt nálgunarbanni gagnvart hálfbróður sínum frá 17. apríl og hafði lögregla kynnt honum bannið í símtali en ætlunin var að afhenda honum formlega pappíra síðar. Nilsen telur þau vinnubrögð einnig ámælisverð:
„Tilgangurinn með fyrirbyggjandi lögreglustarfi er að lögregla sé sýnileg og til staðar. Símtal frá sýslumanni dugir skammt,“ segir hann, en játar þó að hann treysti sér ekki til að spá um hvort atburðarásin í málinu hefði orðið öðruvísi hefði Gunnari verið afhent skriflegt nálgunarbann.
Frétt iFinnmark (læst öðrum en áskrifendum)