Vill að rannsóknin verði rannsökuð

William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, William Barr, hefur skipað sérstakan saksóknara til þess að rannsaka upphaf rannsóknar á meintum tengslum kosningaherferðar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta fyrir forsetakosningarnar 2016 og rússneskra stjórnvalda og hvort söfnun upplýsinga í tengslum við rannsóknina hafi verið lögum samkvæmt.

Fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en verkefnið hefur verið falið John Durham, alríkissaksóknara í Connecticut-ríki. Vísað er í frétt AP-fréttaveitunnar sem byggir frásögn sína á ónafngreindum heimildarmanni. Rifjað er upp í frétt Daily Telegraph að innan við mánuður sé síðan Barr greindi þingmönnum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings að hann teldi að njósnað hafi verið um kosningateymi Trumps.

Síðar sagði Barr að hann væri að setja sama teymi sem ætlað væri að kanna upphaf rannsóknar sérstaka saksóknarans Roberts Mueller. Barr hafi ekki tiltekið hvað hann hafi verið að vísa til en líklegt sé talið að hann hafi átt við eftirlit alríkislögreglunnar FBI með tveimur fyrrverandi samstarfsmönnum Trumps. Forsetinn og stuðningsmenn hans hafi sakað FBI um að hafa njósnað um kosningateymið á ólögmætan hátt.

Fulltrúadeildarþingmenn úr röðum Repúblikanaflokksins hafa einnig gefið í skyn að þeir hafi í hyggju að láta rannsaka hvernig rannsóknin á kosningaherferð Trumps hófst og hvort rannsóknin hafi verið lögum samkvæmt. Rannsókn Muellers benti ekki til þess að glæpsamlegt samsæri hefði átt sér stað á milli kosningateymis Trumps og stjórnvalda í Rússlandi sem haft hefði áhrif á niðurstöðu forsetakosninganna 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert