550 starfsmönnum sagt upp á Karólínska

Björn Zoëga tók við stjórntaumum Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi í …
Björn Zoëga tók við stjórntaumum Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi í upphafi ársins. mbl.is/Ómar Óskarsson

550 starfsmönnum hefur verið sagt upp á Karólínska sjúkra­húsinu í Svíþjóð en um 16 þúsund starfa þar. Þetta er um 20% af stjórnendateymi sjúkrahússins. Björn Zoëga, fyrrverandi forstjóri Landspítalans, var ráðinn for­stjóri sjúkra­húss­ins í upphafi ársins. Þetta kemur fram á vef Dagens Nyheter

Í viðtali við Björn segir hann að uppsagnirnar muni ekki hafa áhrif á sjúklinga spítalans. Hann segir jafnframt mikilvægt að stöðva tapreksturinn en stjórnendum hafði fjölgað talsvert á síðustu árum.   

Á sjúkrahúsinu starfa 16 þúsund starfs­menn og þar eru um 1.400 rúm. Þá er velta spít­al­ans um 18 millj­arðar sænskra króna, and­virði 239 millj­arða ís­lenskra króna.

Í viðtali við mbl.is í janúar greindi hann frá því að starfið yrði krefjandi þar sem ljóst væri að fjárhagur spítalans væri ekki góður og hefði farið úr böndunum á undanförnu. Tvær ástæður lægju helst að baki, sú fyrri að inn­leitt var nýtt vinnu­fyr­ir­komu­lag sem tals­verð óánægja er með og í öðru lagi sé verið að flytja starf­semi yfir í glænýtt sjúkra­hús.  

Í upphafi árs var útlit fyrir að taprekstur yrði um 10,6 millj­arðar ís­lenskra króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert