Bjó og dó í næsta húsi

Doris Day með kærum vini sínum, Rock Hudson, á hátindi …
Doris Day með kærum vini sínum, Rock Hudson, á hátindi ferilsins. AFP

Doris Mary Ann Kappelhoff ætlaði að verða dansari en bílslys sem hún lenti í aðeins fimmtán ára gömul árið 1937 gerði þau áform að engu. Á þeim tíma hélt stúlkan raunar að hún væri aðeins þrettán ára enda stóð hún í þeirri meiningu að hún hefði fæðst 3. apríl 1924. Áratugum síðar, árið 2017, fann AP-fréttastofan fæðingarvottorð hennar og þá kom í ljós að hún fæddist í raun 3. apríl 1922.

En alltént, til að stytta sér stundir meðan hún var að jafna sig eftir slysið fór stúlkan að syngja með útvarpinu, Benny Goodman, Duke Ellington, Glenn Miller og síðast en ekki síst Ellu Fitzgerald. „Gæðin í rödd hennar heilluðu mig,“ sagði hún síðar í endurminningum sínum. Og stúlkunni til ómældrar undrunar var rödd hennar góð; svo góð raunar að hún var drifin í söngtíma, þar sem kennarinn gaf henni þrjá tíma á verði eins vegna hæfileikanna sem í henni bjuggu.

Nafnið sótt í dægurlag

Hljómsveitarstjórinn Barney Rapp varð fyrstur til að gefa henni tækifæri árið 1939 og hann gerði gott betur; gaf henni líka sviðsnafnið Doris Day. Honum þótti Kappelhoff alltof stirt og hátíðlegt en stúlkan var af þýsku bergi brotin, í báðar ættir. Day var ekki út í bláinn en Rapp hafði mikið dálæti á túlkun söngkonunnar ungu á slagaranum Day After Day.

Day starfaði með ýmsum böndum næstu árin en sló ekki í gegn fyrr en 1945 með laginu Sentimental Journey sem hún hljóðritaði með hljómsveit Les Brown. Lagið hitti bandarísku þjóðina í hjartastað enda beið hún í eftirvæntingu eftir að fá hermennina sína heim í lok seinna stríðs. Eftir þetta átti Day hvern smellinn af öðrum á vinsældalistanum vestra.

Day ferðaðist vítt og breitt um landið til að koma fram og þótti búa að ósviknum sviðssjarma. Það hringdi bjöllum í Hollywood og árið 1948 var henni boðið hlutverk í kvikmyndinni Romance on the High Seas. Day brá í brún og benti mönnum í einlægni á að hún hefði enga reynslu af leiklist. Leikstjórinn, Michael Curtiz, kunni að meta hreinskilnina og þótti Day fullkomin í hlutverk erkiamerísku stúlkunnar í myndinni. Ímynd sem hún losnaði aldrei við; þegar Doris Day hætti að vera stúlkan í næsta húsi varð hún eiginkonan í næsta húsi.

Nánar er fjallað um Doris Day í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hún lést í byrjun vikunnar, 97 ára að aldri. 

Doris Day var 97 ára þegar hún lést.
Doris Day var 97 ára þegar hún lést. AFP
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert