Hvött til að afsala sér prinsessutitlinum

Marta Lovísa Noregsprinsessa og nýr unnusti hennar, bandaríski heilarinn Durek …
Marta Lovísa Noregsprinsessa og nýr unnusti hennar, bandaríski heilarinn Durek Verrett, í Ósló í fyrradag. AFP

Marta Lovísa Noregsprinsessa hefur verið hvött til að afsala sér prinsessutitlinum vegna þess að hún hefur notað hann til að markaðssetja fyrirtæki sitt og auglýsa fyrirlestra sína með nýjum unnusta sínum, Durek Verrett, sem hefur lýst sér sem „seiðmanni“.

Marta Lovísa er eldra barn Haralds 5. konungs og Sonju drottningar og fjórða í erfðaröð norsku krúnunnar, á eftir Hákoni bróður sínum og börnum hans. Hún giftist norska rithöfundinum Ari Behn árið 2002 en þau fengu lögskilnað 2017. Hún kynnti nýja unnustann sinn á samfélagsmiðlum á sunnudaginn var og seinna var greint frá því að þau hygðust fara saman í fyrirlestraferð undir yfirskriftinni „Prinsessan og seiðmaðurinn“. Fyrsti fyrirlesturinn verður haldinn í Kaupmannahöfn á morgun, sunnudag, að sögn fréttavefjar Aftenposten. Fyrirlestrarnir verða haldnir á vegum einkafyrirtækis prinsessunnar, Prinsesse Märtha Louise Kulturformidling. Dagbladet hefur eftir framkvæmdastjóra prinsessunnar að hún hyggist stofna nýtt hlutafélag innan skamms.

Norska blaðið Fædrelandsvennen sagði í forystugrein í fyrradag að Marta Lovísa þyrfti að afsala sér prinsessutitlinum vegna þess að ekki væri við hæfi að hún notaði hann til að markaðssetja fyrirtæki sitt. Blaðið sagði að prinsessan gæti valið sér unnusta að vild og hefði skoðanafrelsi en hún og unnusti hennar gætu ekki notað titil hennar í viðskiptatilgangi. 

Umdeildur heilari

Marta Lovísa sagði í sjónvarpsviðtali í fyrradag að hún hefði ekki íhugað að afsala sér titlinum. „Ég er í konungsfjölskyldunni og verð það áfram,“ sagði hún.

Fjölmiðlafulltrúi konungsfjölskyldunnar sagði að hún fylgdist með umræðunni um málið og hygðist ræða við prinsessuna um markaðssetningu fyrirtækis hennar, að sögn Aftenposten.

Unnustinn kallar sig Shaman Durek, eða Seiðmanninn Durek, og hann lýsir sér sem „andlegum leiðbeinanda og hæfileikaríkum heilara“ á vefsíðu sinni. Hann kom hingað til lands árið 2015 til að halda námskeið og bjóða upp á einkatíma. Fram kom í Morgunblaðinu á þeim tíma að hann liti á sig sem „miðlara milli efnisheims og andaheims“.

Heilunarstarfsemi seiðmannsins hefur verið mjög umdeild. Formaður Hvítblæðisfélagsins í Noregi varaði nýlega við „viðvaningslegum ummælum“ hans og skírskotaði einkum til staðhæfinga hans um að sjúkdómurinn stafaði af ójafnvægi í beinunum. Ennfremur hafa samtök norskra flogaveikissjúklinga varað þá við honum.

Marta Lovísa afsalaði sér titlinum „konungleg hátign“ og lífeyri frá konungshöllinni árið 2002 og sagðist þá vilja frelsi til að sinna áhugamálum sínum. Hún rak lengi englaskóla ásamt samstarfskonu sinni, Elisabeth Nordeng, og þær skrifuðu tvær bækur til að hjálpa fólki að komast í samband við engla. Samstarfi þeirra lauk í fyrrahaus

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka