Banna fiskveiðar í Bangladess

Allar fiskveiðar eru bannaðar í Bengalflóa.
Allar fiskveiðar eru bannaðar í Bengalflóa. AFP

Yfirvöld í Bangladess hafa bannað fiskveiðar næstu 65 daga vegna ofveiði í tilraun til að vernda fiskistofninn. Allir fiskibátar verða vaktaðir og þeim meinað að róa út á miðin og hefur strandgæsla þegar verið efld. BBC greinir frá.  

Banninu er einkum ætlað að stöðva ofveiði á fiski sem nefnist hilsa á enskri tungu og er skyldur síld. 

Fleiri þúsund sjómenn hafa skipulagt mótmæli gegn banninu og benda á að þeir verði fyrir gríðarlegu tekjutapi. Bannið gildir frá 20. maí til 23. júlí sem er hrygningartími fiskanna.  

„Fiskistofninn mun hverfa einn daginn ef veiðarnar eru ekki sjálfbærar,“ sagði Ashraf Ali Khan Khasru, sjávar- og búfénaðarmálaráðherra landsins. Hann benti einnig á að það væri mikilvægt að leyfa fiskinum að fjölga sér og stækka, annars yrði framtíðin þjáningafull. 

Yfirvöld segja að bæði strandgæslan og sjóherinn vakti Bengalflóa. 

Fram að þessu hafa verið í gildi styttri tímabil þar sem veiðibannið hefur gilt. Þetta er í fyrsta skipti sem öllum fiskveiðibátum einnig smærri bátum heimamanna er meinað að veiða í heila tvo mánuði. Yfirvöld segja jafnframt að bannið sé komið til að vera.  

Samtök sjávarútvegsins hafa skorað á forsætisráðherra landsins að endurskoða bannið. Þau hafa einnig óskað eftir skaðabótum vegna tekjutapsins. 

Fiskurinn er mikilvægur í mataræði íbúanna. Bangladess er stærsti útflytjandi hilsa. Undanfarið hafa markaðir með hann hríðlækkað vegna ofveiði. Um 60% af öllum hilsa á markaði eru veidd í Bangladess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert