Á tindi Everest í tvígang á 6 dögum

Kami Rita sést hér á toppi Everest í 23. skiptið …
Kami Rita sést hér á toppi Everest í 23. skiptið í síðustu viku. AFP

Serpinn Kami Rita stóð á tindi hæsta fjalls heims í 23. skiptið fyrir sex dögum. Í dag var hann þar að nýju, nú í 24. skiptið. Ólíklegt er að þetta met verði slegið á næstunni en Kami Rita, sem er 49 ára gamall, hefur starfað sem leiðsögumaður í Nepal í rúma tvo áratugi. 

„Þetta er sögulegt,“ segir yfirmaður fjallaferðaskrifstofunnar Seven Summit Treks, Mingma. Hann setti þetta met í morgun er hann fór með hóp af indverskum lögreglumönnum á topp Everest. 

Kami Rita fór fyrst á tind Everest, sem er 8.848 metrar að hæð, árið 1994.  Á þeim 25 árum sem liðin eru hefur hann farið í 35 leiðangra á fimm fjöll sem eru yfir 8 þúsund metrar að hæð. Þar á meðal K2 í Pakistan sem er annað hæsta fjall heims. 

Í fyrra fór hann á Everest í 22. skiptið og setti þar með nýtt met í ferðum á hæsta tind heims. En fyrra metinu, 21 ferð, deildi hann með tveimur öðrum sjerpum sem báðir eru nú komnir á eftirlaun. 

Þegar hann sneri til baka úr leiðangri númer 23 á Everest lá ljóst fyrir að hann ætlaði sér að fara upp í annað skiptið á þessu tímabili. 

„Ég er afar glaður og stoltur. Ég á jafnvel von á því að fara á tindinn aftur á þessu tímabili,“ sagði hann í símtali við fréttamann AFP í liðinni viku. Kami Rita hefur oft sagt að það sé ekki markmið hans að setja met en sem leiðsögumaður sé það hluti af hans starfi að fara á Everest.  

Everest er hæsta fjall heims.
Everest er hæsta fjall heims. AFP

„Ég geri þetta ekki til þess að slá heims­met. Ég er bara í vinn­unni. Ég vissi ekki einu sinni að hægt væri að setja slík met,“ sagði hann í síðasta mánuði þegar hann lagði af stað í grunn­búðir Ev­erest.  

Aldrei hafa verið gef­in út jafn mörg leyfi fyr­ir ferðum á Ev­erest í Nepal en í ár en alls eru leyf­in 378 tals­ins en hvert þeirra kost­ar 11 þúsund Banda­ríkja­dali, tæp­lega 1,4 millj­ón­ir króna. Flest­ir fara upp að vori og er talið að um 750 manns feti stíga fjalls­ins þetta vor þar sem flest­ir eru með sjerpa, líkt og Kami Rita, sem aðstoðar­menn við upp­göng­una. 

Síðan eru að minnsta kosti 140 að und­ir­búa ferð á Ev­erest Tíbet-meg­in. Það er norður­hlið Ev­erest sem er mun erfiðari. Alls náðu 807 á tind Ev­erest í fyrra og var það nýtt met. 

Indverskur fjallgöngumaður lést á Everest í síðustu viku og leit stendur yfir að írskum fjallgöngumanni sem rann og féll skammt frá toppi Everest nýverið. Sex erlendir fjallgöngumenn hafa látist á öðrum tindum í Himalaja-fjöllunum sem eru yfir átta þúsund metrar að hæð í ár og tveggja er saknað.

Kami Rita fór í fyrsta skipti á Everest árið 1994.
Kami Rita fór í fyrsta skipti á Everest árið 1994. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert