Vígamaður, sem sakaður er um að hafa skotið 51 múslima til bana í tveimur moskum í nýsjálensku borginni Christchurch 15. mars, var í dag ákærður fyrir hryðjuverk. Auk þess að vera ákærður fyrir hryðjuverk verður hann einnig ákærður fyrir 51 morð og 40 manndrápstilraunir.
Í tilkynningu frá ríkislögreglu Nýja-Sjálands var ákæran um hryðjuverk lögð fram í Christchurch í dag. Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, hefur allt frá árásinni sagt hana vera þaulskipulagða hryðjuverkaárás en það var fyrst í dag sem hann er ákærður formlega fyrir hryðjuverk. Þetta er í fyrsta skipti sem einhver er ákærður fyrir hryðjuverk í Nýja-Sjálandi og hefur því aldrei áður reynt á hryðjuverkalöggjöf landsins sem sett var árið 2002.
Hryðjuverkamanninum, sem er 28 ára gamall Ástrali, er haldið í öryggisfangelsi og þar er verið að kanna hvort hann er sakhæfur. Honum er gert að mæta næst fyrir dómara 14. júní.